Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 54
og rólegur, og laus viS alla styggð og óhemjuskap. Það var mér
mikiS angursefni þegar ég, sumarið eftir, gekk fram á hann dauðan
í leirflagi. Hafði það gerzt með þeim hætti, að hundavargar af næsta
bæ tóku upp á því að elta fé upp um fjöll og heiðar. Höfðu þeir
rekizt á Smokk og elt hann, hvað lengi veit ég ekki, en leikurinn
hafði að lokum borizt út í þetta flag. Sá ég greinilega slóðina bæði
eftir sauðinn og hundana. Mátti sjá að alltaf hafði dýpkað meira
og meira á sauðnum, eftir því sem lengra kom út í flagið unz hann
að lokum hafði stungizt og þar höfðu hundarnir ráðizt á hann.
Fram að þessu hafði hugur minn snúizt eingöngu um björgun
ánna, en nú fór ýmislegt annað að hvarfla að mér. Heima á Foss-
völlum var ekki annað heima af karlmönnum en einn unglings-
piltur, Björgólfur Kristjánsson. Hann var eitthvað eldri en ég, en
þó innan við tvítugt. Taldi ég ekki líklegt að hann myndi treysta
sér til að koma mér til bjargar, en ég var ákveðinn í að reyna ekki
að komast heim einn míns liðs, þá reynzlu var ég búinn að fá af
þessu veðri. Hálfbróðir minn, Stefán, sem staðið hafði fyrir búi
móður sinnar frá því er faðir minn dó, hafði farið til Vopnafjarðar
nokkru fyrir jólin, að mig minnir í þeim erindum að bólusetja fé
gegn bráðafári. Slíkt bóluefni var þá nýlega komið í gagnið. Var
í byrjun notað danskt bóluefni. Þótti það vandmeðfarið, en Stefán
þótti mjög laginn að meðhöndla það. Stefán hafði verið væntan-
legur heim fyrir jólin, en á aðfangadagsmorguninn, þegar ég fór að
heiman, var hann þó ókominn. Taldi ég engar líkur til að hann
kæmi heim þennan dag, eins og veðri var háttað. Eg sá því ekki
fram á annað en að ég myndi verða að gista þarna á Selinu á sjálfa
jólanóttina.
Eg var á þessum árum mjög myrkfælinn. Var það kannske að
vonum, því að draugatrú var þá svo almenn, að fólk þóttist sjá
drauga í hverju horni eftir að skyggja tók. Voru draugarnir næstum
að segja eins raunverulegir og fólkið á bæjunum. Það vantaði þá
heldur ekki, að maður vildi heyra sögur af þeim, enda nógir sem
voru fúsir til að segja slíkar sögur. Gátum við krakkarnir setið
undir þessum lestri tímunum saman, eða meðan sögumaður entist
til að segja frá, og þorðum svo ekki um þvert hús á eftir. Hefur
52
MÚLAÞING