Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 146
Bjartan febrúarmorgun bjóst ég snemma til ferðar með matarbita
í tuðru, steig á skíðin í hlaðvarpanum, brá stöfunum og hélt af
stað. Einhverjir kippir flugu í lappirnar á hundinum Dindli, en
hann var orðinn gamall og feitlaginn og rölti feginn inn í hæjar-
dyrnar þegar ég sagði honum að vera heima.
Hjartarstaðabærinn stendur skammt frá því fjalli er gangan
skyldi þreytt á, og von bráðar var ég kominn í neðstu brekkurnar.
Ég tók stefnu á Afréttarskarð sem liggur í 842 metra hæð um 4 km
norðan Vestdalsheiðar. Það er skemmsta leið gangandi manni frá
Hjartarstöðum á Seyðisfjörð, um 4 stunda gangur í góðu leiði.
Landslagi er þannig háttað á þeim hluta Austfjarðafjallgarðs-
ins sem hér kemur við sögu, að Héraðsmegin er mjög brattalítið,
jafnvel svo að neðantil er erfitt að gera sér grein fyrir hvað er
fjall og hvað láglendi. Upp eftir öllu fjalli er hjalli eftir hjalla,
lágir og aflíðandi, vot mýrardrög, lyngmóar með eilitlu kjarri, fjall-
drapa og birki neðantil í fjallinu og fremst melbrúnir, ávalar og
kollóttar eða grasigrónar móaöldur. Þar eru grunn lækjargil og
daladrög, sem liggja á ýmsa vegu, mjúkar ávalar línur um allt,
kallast hálsar, tungur, hæðir, melar, botnar, dalir og drög; sama
mýkt yfir nafngiftum og landslagi. Þetta sýnist enginn spölur þang-
að sem efstu brúnir ber við heiðskírt vetrarloftið, en dregur ótrú-
lega til sín. Þegar komið er í 500-600 metra hæð verða fell og
ufsir á báðar hendur, en víðáttumiklar flatneskjur á milli.
Skíðaslóð mín lá skáhallt á Tó, hina gömlu þjóðleið Loðmfirð-
inga. Framundan reis Dragafjall með Skýhnjúk efstan í 1000 metra
hæð, og leiðin liggur skáhallt á bratta Dragafjalls suðvestanvert.
Aður en efsti hluti fjallsins lokaði fyrir útsýnið til norðurs varð
mér litið yfir norðurhluta fjallabálksins sem skilur Hérað og
Fjörðu. Næst er Botnsdalsfjall 1013 m handan við 10 km breiða
lægð, síðan Beinageit með 1107 m háum toppi, og lengra í útnorður
Dyrfjöll. Þessi fjallabálkur liggur frá suðvestri í norðaustur en frá
norðri til suðvesturs breiddist þennan morgun Fljótsdalshérað
sindurhvítt í vetrarsól, utan frá bláum flóanum og inn til dala. Inni
í Fljótsdal var dökkvi yfir landinu, enda auð jörð þar eins og vant
var.
144
MÚLAÞING