Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 102
dansar og textarnir við þá. Dansarnir og danskvæðin voru mjög
gömul á íslandi, og munu elztu heimildir um þá vera Biskupasög-
urnar og Sturlunga. Þessi kveðskapur fjallaði oftast um þjóðleg,
alþýðleg efni og var á þjóðlegu alþýðlegu máli, að formi til svip-
aður rímunum. Er því hugsanlegur möguleiki, að áhrifa gæti það-
an á hinum lipra og einfalda kveðskap sr. Einars.
Einnig er athugunarvert, að oft voru í hinum svokölluðu frá-
sögudönsum þríkvæð stef. Einmitt sams konar einkenni koma víða
fram hjá sr. Einari og má þar t. d. nefna stefið í kvæðinu um hinn
síðasta dag:
„Dimmt er í heiminum, drottinn minn,
deginum tekur að halla.
Dagur fagur prýðir veröld alla.“
Mun þetta stef tekið beint úr einhverjum fornum frásögudansi.
í kvæðinu af stallinum Christi, sem nefnist Vöggukvæði, er stefið
á þessa leið:
„Emmanúel heitir hann
herrann minn enn kæri.
Með vísnasöng ég vögguna þína hræri.“
Sennilegt er, að bæði þessi viðlög séu orðin til fyrir áhrif gam-
alla rímna og danskvæða, eða tekin beint að láni þaðan. Fleira
mætti telja upp en skal nú hér staðar numið.
Möguleikar fyrir því, að sr. Einar hafi orðið fyrir áhrifum frá
þessum létta (músíkalska) skáldskap er að vísu til staðar, og
raunar margt sem virðist benda til þess; en slíkt verður, allt fyrir
það, aldrei annað en tilgáta.
Eitt merkasta kvæði sr. Einars er, eins og áður hefur verið sagt,
„Ævisöguflokkur“ hans. Er hann til í allmörgum handritum, en
þar ber margt á milli hvað snertir erindafjölda, orðalag og vísna-
skipun. En þar sem kvæðið hefur verið notað sem heimild um ævi
og störf höfundar, þykir mér hæfa að fjölyrða nánar um það, og
gera að nokkru grein fyrir því helzta, sem ber á milli í handritun-
um, en leiði hjá mér aukaatriði, sem ekki skipta verulegu máli.
I Blöndu I er kvæðið hirt, og hefur Hannes Þorsteinsson ritað
allýtarlegan formála með því. Þar segir meðal annars svo:
100
MÚLAÞING