Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 70
sína leið. Og vitanlega tókst ekki betur til en svo, að þegar ég datt
rak ég hnakkann í annan stein, - það er nóg af þeim hér á landi,
einkanlega þar sem þeir eiga ekki að vera - sá margar sólir og
stjörnur, en brölti þó á fætur og mín fyrsta hugsun var: Hver and-
skotinn varð nú um hjólin. Eg litaðist um en sá þau hvergi, aðeins
kassann og kassagrindina. Og nú fóru horfurnar að daprast á því,
að ég kæmi kerrunni í heilu lagi til Akureyrar.
Er ég stóð þarna hálfvankaður í þessum hugleiðingum, var
allt í einu hnubbað í síðu mér. Ég stökk í loft upp - að vísu ekki
hæð mína eins og Gunnar á Hlíðarenda, enda hef ég ekki trú á
því, að hann hafi verið rúmar þrjár álnir, eins og ég var þá og er
enn - en viti menn. Þegar ég áttaði mig, þá var Gráni minn þarna
kominn. Ég settist á næsta stein, það var nóg af þeim þarna, og fór
að tala við Grána:
„Jæja, Gráni minn. Nú erum við laglega settir, með hjólalausa
kerru og allt í rusli.“ En Gráni anzaði engu, var farinn að kroppa
safaríkt gras þarna á hjallanum. Og hvernig er það lesandi góður,
að fá ekkert svar við spurningum sínum? Fer maður þá ekki að
bögglast við að hugsa, eða hvað? Þannig fór mér, að minnsta
kosti í þetta skipti.
Fyrsta hugsun mín var: Hvernig stóð á því, að ég datt endilega
þarna? Var þarna eitthvað óhreint, eða hvað? Nei það gat ekki
verið, í glaða sólskini. Nú, en því kom Gráni á eftir mér niður á
hjallann? Svarið var einfalt. Uppi var ekki stingandi strá, en á
hjallanum, þar sem við vorum staddir, var nóg gras.
Af einhverri rælni labbaði ég fram á næstu hjallabrún, og hvað
sá ég? Húrra, hjólin. Að vísu ekki eins og þau áttu að vera, annað
hjólið lá flatt á jörðinni en hitt öxullengd ofar í sama plani og sner-
ist enn. Þessi sjón gladdi mig mjög og nú hófst ég handa við að
koma hinu draslinu niður. Það gekk allvel.
En nú var ég orðinn tortrygginn og gekk fram á brún næsta hjalla
og sá strax, að þar mundi ég ekki heldur koma kerrunni niður í
heilu lagi og selflutti nú draslið allt þangað niður. Setti þar saman
kerruna og vonaði nú, að þrengingum mínum væri lokið í bili. Það
var nú ekki alveg, en þó olli það engum erfiðleikum, því að ég
komst niður það sem eftir var án þess að taka sundur kerruna. Og
68
MÚLAÞING