Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 134
Hann var vinnumaður á Hofi hjá Jóni Björnssyni, þá var mikið
kuldavor. Það mun hafa verið vorið 1897 og tók fé seint við sér,
fékk seint þrif. Þá var það eitt sinn að fé var hleypt saman til að
laga á ám sem ull var farin að trosna neðan úr og taka kviðull og
það sem laust var orðið. Runki átti þar nokkrar ær. Hann gerði
ekki eitt úr með sínar ær. Hann reytti af þeim bæði fast og laust.
Blöskraði mönnum þessi aðferð og bönnuðu honum að gera þetta,
en hann vildi ekki sinna því. Var þá leitað til séra Jóns Finnssonar
og hann beðinn að koma vitinu fyrir Runka og það heppnaðist. Um
nóttina gerði blotahríð og ærnar sem Runki reytti drápust, krókn-
uðu. Mig minnir þær vera fjórar.
Runóljur fer í róður
Lítið mun Runki hafa stundað sjó er hann var hér, þó fór hann
í róður stöku sinnum. Það var eitt vor að fiskur var hér á grunn-
miðum og allir bátar á sjó. Runki mun þá hafa verið á Hofi, en
var á bát með Sigurði Björnssyni á Þvottá og voru fjórir á. Er á
fiskimið kom renndu hásetar færum, en Sigurður hélt árum í
andóf, það var venja hans, taldi það fiskisælla, jafnvel þótt logn
væri. Runki renndi sínu færi og sat úti við borðstokkinn og keip-
aði lítið og var að sjá mjög hugsi, en hinir drógu. Er hann hafði
þannig setið æði lengi leit hann upp og mælti:
— Ef ég dytti nú útbyrðis og drukknaði, þá fengi ég lífsábyrgð-
ina mína. Hinir hlógu og töldu það líklegt að hún yrði greidd, en
þá áttaði Runki sig og mælti:
—■ Já, það er alveg rétt, þá væri ég dauður.
Um þetta hefur hann verið að hugsa, þá nýtryggður.
Runólfur fer í brúðkaupsveizlu
Haustið 1894 var haldin brúðkaupsveizla á Starmýri. Þá gengu
þar í hjónaband Sigurður Jónsson frá Krosslandi í Lóni og Ragn-
hildur Árnadóttir Runólfssonar frá Geitavík í Borgarfirði. Veizlan
var fjölmenn, góðar veitingar og nóg vín. Veður var vont, snjókoma
fyrst, hvessti svo af norðri og gerði vonzkubyl. Allt gekk samt að
óskum er húsum var náð.
132
MÚLAÞING