Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Blaðsíða 130
gróskan var mest. Ekki virtist mér boli gefa mér neinar gætur.
Stökk ég svo inn af veggnum nokkuð frá þar sem nautin voru, en
um leið og ég var kominn inn kom boli á móti mér. Nú skyldi reynt
bareflið og fór ég hiklaust móti bola.
Þar sem við mættumst mátti heita slétt. Þó var þar dálítil ávöl
bunga, eða raunar aðeins þúfa, og hugsaði ég um það að reyna
að láta bola ekki hrekja mig af þúfunni. Hann snarsnerist í kring-
um mig með hausinn oftast niðri við jörð, en ég lét höggin dynja
svo hart og títt sem ég hafði orku til. Sérstaklega fannst mér honum
þætti vont að fá högg á eyrun og sætti ég því lagi þegar ég’ gat
komið þar höggum.
Ekki veit ég hvað lengi þessi bardagi stóð, en ég fann að ég var
farinn að þreytast. Þegar mér varð það ljóst, skildi ég, að annað
hvort var að duga betur eða boli mundi tæta mig sundur. Kom þá á
mig einhvers konar hamagangur svo boli sneri loks undan áleiðis
til kúnna. Hvarf mér þá þreytutilkenningin og fylgdi ég nú sigrinum
eftir, elti bola og lamdi, hvenær sem ég komst í höggfæri. Þegar
boli var kominn til kúnna kom ég hópnum fljótlega úr Haganum
og venjulega leið inn fyrir Merkilæk, og rölti boli með kúnum án
þess að sýna af sér nokkra illsku.
Ekki fékk ég þakkir fyrir nautareksturinn, þegar foreldrar mínir
komu heim, því allt sagði ég sem var, hvað okkur bola fór á milli.
Eftir að lengra leið á sumarið og nótt orðin dimm fór boli að
fara einförum og heyrðust stundum í honum drunurnar einhvers
staðar utan úr myrkrinu, en aldrei varð hann á leið minni eftir
sunnudagsviðureign okkar í Haganum. Mun faðir minn hafa átt
hlut að því, að eigandi bola gætti betur nauta sinna þetta sumar en
oft áður, því að ekki minnist ég þess, að þau kæmu út í Hagann,
nema í þessi tvö skipti, sem hér er sagt frá.
Um haustið var bola fargað og þar með hefði okkar viðskiptum
átt að vera lokið, en því fór fjarri, og kem ég að því síðar.
Nú á gamalsaldri er mér ekki ljóst hvað það var, sem bjargaði
mér frá meiðslum eða bana. Var það minn eiginn ákveðni hugur,
eða einhver önnur orka, sem ekki kemur fram, nema á úrslitastund-
um og menn endranær ná ekki tökum á?
Vorið 1907 brá faðir minn búi í Gilsárvallahjáleigu og við flutt-
128 MÚLAÞING