Eimreiðin - 01.01.1900, Síða 6
6
2) Kjósendurnir eiga að geta kosið þá, sem bjóða sig fram,
framboðana, eftir eigin sannfæringu.
3) Atkvæði sérhvers kjósanda á að hafa fult gildi í hlutfalli
við önnur atkvæði, eigi að eins að því er snertir þann mann,
er hann vill kjósa, heldur og þann flokk, er hann fylgir að málum.
Vér verðum nú að athuga hverja af þessum meginreglum út
af fyrir sig.
1) Fyrsta meginreglan er, að kjósendum skal gjört mögulegt
að neyta kosningarréttar síns og það á að gjöra þeim það nokk-
urn veginn jafnauðvelt.
Fyrri liðurinn er bersýnilega öldungis nauðsynlegur, því til
hvers er að veita mönnum kosningarrétt, en gjöra mönnum jafn-
framt ómögulegt að nota þennan rétt. þegar þess konar ákvæði
eru lögleidd, minnir það töluvert á það, þegar tóan bauð stork-
inum til veizlu, en lét veizlukostinn á svo grunt fat, að storkurinn
náði ekki í neitt, en tóan lapti alt af fatinu sjálf. En alveg eins
fer löggjafarvaldið að, þegar það veitir Grímseyingum og fátækum
mönnum í Siglufirði og Ólafsfirði kosningarrétt, en lætur kjörstað-
inn vera á Akureyri; því að fátækum mönnum er ómögulegt að
fara frá heimilum sínum svo langt.
f>að er til prentuð skýrsla um kjósendur hér á landi árið
1880. þetta ár höfðu 6557 menn hér á landi kosningarrétt til
alþingis, en þeir, sem kusu, voru að eins 1618 eða með öðrum
orðum tæpur fjórði hluti. Að vísu hefðu fleiri menn getað not-
að kosningarréttinn, en samt mun óhætt að fullyrða, að fullum
helmingi kjósendanna hafi verið ómögulegt eða því sem nær
að neyta kosningarréttar síns.
það er hið mesta ranglæti, þegar kosningarlögin eru þannig,
að þau gjöra mönnum ómögulegt að neyta kosningarréttarins, og
þó að svo sé hér á landi, þá á slíkt sér eigi stað í neinu siðuðu
landi; meira að segja, í flestum siðuðum löndum er fullnægt þeirri
réttlætiskröfu, að kjósendum sé gjört hér um bil jafnauðvelt að
neyta kosningarréttarins.
í Noregi, Svíaríki og Prússlandi eru kosnir kjörmenn, sem
aftur kjósa sjálfa þingmennina og á sama hátt er kosið til ríkis-
ráðsins í Austurríki og Ungverjalandi. þessa kjörmenn eiga kjós-
endur mjög auðvelt með að kjósa. En á Englandi, Hollandi,
Belgíu, Frakklandi, þýzka keisaradæminu og Ítalíu velja kjósend-
urnir sjálfir þingmennina líkt og á sér stað hér á landi, en í öllum