Eimreiðin - 01.01.1900, Blaðsíða 148
148
VI.
W. G. COLLINGVVOOD and JÓN STEFÁNSSON: A PILGRIM-
AGE TO THE SAGA-STEADS OF ICELAND. Ulverston 1899.
Þessi bók hefir í sumum íslenzkum blöðum verið kölluð skonungsger-
semi«, enda má það vel til sanns vegar færa, því önnur eins skrautrit
um íslenzk efni eru sjaldsénir fuglar. Búningurinn er í alla staði svo
smekklegur og fagur, að mönnum hlýtur að verða starsýnt á hann. Og
þegar þar við bætist, að efnið er einkar hugðnæmt og vel valið, þá
getur varla hjá því farið, að þessi bók verði til þess að vekja meiri
eftirtekt á íslandi en nokkur önnur, sem í langa hríð hefir út komið.
Vér megum því sannarlega vera höfundunum þakklátir fyrir starfsemi
þeirra, þar sem bókin bæði getur aukið sjálfum oss unað og stuðlað
að vaxandi þekkingu og áliti á landi voru út á við.
Aðalmarkmið þessarar bókar er í stuttu máli það, að sýna mönn-
um, hvernig umhorfs sé á þeim stöðum, þar sem hinir helztu viðliurðir,
er okkar frægu fomsögur segja frá, hafa gerst. Höf. segja, að þegar
menn í útlöndum séu að lesa sögurnar og dást að þeirri list, sem komi
fram í lýsingum þeirra á persónum og viðburðum, þá séu menn oftast
nær í standandi vandræðum með að gera sér grein fyrir því leiksviði,
sem alt þetta gerist á. Því hafi sagnariturunum ekki dottið í hug að
lýsa, af því að þeir hafi skrifað fyrir íslendinga, sem þektu það af
eigin reynd. En fyrir þá útlendinga, sem lesi sögurnar, sé það mjög
áríðandi að fá rétta hugmynd um, hvernig litið hafi út á þeim stöðv-
um, er sögurnar gerðust á, því að þá verði svo miklu hægra að skilja
lyndiseinkunnir þeirra manna, sem sagt sé frá. Sú náttúra, sem sé í
kringum menn, hafi sem sé jafnan töluverð áhrif á skaplyndi manna,
þó menn geri sér ef til vill ekki sjálfir grein fyrir því. Og ef nú lesend-
urnir hugsi sér hina »bleiku akra« Gunnars, Helgafell Snorra og stað-
ina, þar sem Guðrún átti heima og Kjartan dó, eins og ægilega auðn
frosts og funa, þá geti menn ekki botnað í neinu. En geri menn sér
hugmynd um sögustaðina eins og þeir eru í raun og veru, þá eigi
menn hægra með að gera sér grein fyrir þeim innileik blíðu og ástar og
þeim ofsa heiftar og haturs, sem sögurnar lýsi hjá persónum sínum.
Bókin á þvi að vera eins konar uppdráttur, til að hafa við hönd-
ina til skilningsauka, þegar menn eru að lesa sögumar, líkt og menn
hafa landabréf, þegar menn era að lesa landafræði og um stórviðburði
í mannkynssögunni. En hún er í raunihni miklu meira, því bæði af
myndunum og textanum má hafa svo mikla nautn út af fyrir sig, að
bókin er í fylsta máta sjálfstæð án sambands við nokkuð annað. í