Skírnir - 01.01.1940, Qupperneq 30
Skírnir
Sannfræði íslenzkra þjóðsagna
27
um menn og viðburði, sem þær skýra frá. Um þetta efni
er engin samstæð rannsókn til, en þó hafa ýmsar einstak-
ar sögur verið bornar saman við aðrar öruggari heim-
ildir. Auðvitað er allur þorri þjóðsagna þannig vaxinn, að
engar heimildir eru til samanburðar um aðalefni þeirra,
enda gera þær oft ekki kröfu til annars en að vera hreinn
skáldskapur, svo sem er um æfintýri og ýmsar skyldar
sögur, sem standa veruleikanum jafnfjarri, að öðru leyti
en því, að þeim hefir verið skapað þjóðlegt, íslenzkt um-
hverfi. Þannig er t. d. um flestar útilegumannasögur og
tröllasögur. Hins vegar er einnig-til fjöldi sagna, sem
tengdar eru við ákveðna menn eða ættir eða ákveðna sögu-
lega viðburði. Svo er um margar álfasögur og einkum
draugasögur, uppvakninga og fylgna, galdrasögur, afreks-
verkasögur o. fl. Slíkar sögur eru venjulega sagðar sem
sannar væru, bundnar við ákveðinn stað og tíma og
ákveðna, nafngreinda menn. Má þar því oft koma við
nokkurri sögulegri rannsókn, bæði um mannfræði þeirra
og staðfræði og stundum einnig um þá viðburði, sem sög-
ur hafa spunnizt af. Samanburður sagna þessara við aðr-
ar heimildir getur leitt í ljós margan fróðleik um mynd-
un þjóðsagna yfirleitt, sýnt, hvernig einkennilegur, óvænt-
ur eða minnistæður viðburður verður tilefni til þess að
þjóðsaga myndist, hvernig hann getur vakið ímyndunar-
afl fólks, sem leitar venjulega einhverrar yfirnáttúrlegr-
ar skýringar, er liggur utan þess, sem sannað verður eða
ósannað. Telja verður þó, að slíkur samanburður hafi stór-
um meira og almennara gildi sem prófsteinn á áreiðan-
leik og heimildargildi alþýðusagna og arfsagnar í víðari
merkingu. Það atriði snertir eigi aðeins þjóðsögurnar
sjálfar, heldur einnig aðrar bókmenntagreinir, sem orðn-
ar eru til með líkum hætti, sögur og sagnir, sem ritaðar
eru eftir munnlegri frásögn alþýðu manna og minnið eitt
hefir varðveitt í lengra eða skemmra tíma, stundum svo
að skiptir nokkurum öldum. En auðvitað er, að þjóðsögur
geta því aðeins verið slíkur prófsteinn, sem nú var lýst,
að þær séu skráðar beint eftir munnlegri frásögn, en hafi