Skírnir - 01.01.1940, Síða 42
Skírnir
Sannfræði íslenzkra þjóðsagna
39
sonarsonur hins fyrrnefnda, eins og síra Einar Jónsson
hefir sýnt í ritgerð sinni um þá nafna í Skírni 1931.
Hér skal nú staðar nema um upptalningar af þessu tagi,
þótt ýmis fleiri dæmi mætti nefna, ef önnur þjóðsagna-
söfn væru tekin með. Það, sem hér hefir verið talið, er
nóg til þess að sýna það, að nöfn, ættfærslur og annar
mannfræðilegur fróðleikur, sem skráður er eingöngu eft-
ir munnlegum heimildum, er eigi svo áreiðanlegur sem
skyldi og það jafnvel ekki heldur um tiltölulega nálægt
fólk í tíma. Eins og áður er sagt, getur ýmislegt af þessu
tagi að vísu geymzt nærri því ótrúlega lengi í minni, og
vissulega er allur þorrinn af mannfræði þjóðsagnanna
sögulega réttur, en þó eru dæmin um skekkjur og missagn-
ir svo mörg, að þau nægja til þess að kenna mönnum að
taka allan munnlegan mannfræðifróðleik með fyllstu var-
úð og treysta honum ekki um of að órannsökuðu máli.
Gildir þetta eigi aðeins um þjóðsögur, heldur einnig um
aðrar tegundir bókmennta, sem eiga sér hinn sama upp-
runa, að þær eru skráðar eftir munnlegum heimildum, sem
varðveitzt hafa í minni manna í lengra eða skemmra tíma.
V.
Eg hverf nú að því að athuga heimildargildi sagnanna
um ýmsa atburði, er þær greina frá. f mörgum þjóðsög-
um eru frásagnir af atburðum, sem hafa í raun og veru
gerzt og öruggar heimildir eru til um. Getur þá stundum
Verið fróðlegt og skemmtilegt að sjá, hverri meðferð hin
sanna saga hefir sætt í langri geymd á alþýðu vörum. Hér
til heyrir það auðvitað ekki að rannsaka hluti eins og það,
hvort frafells-Móri hafi verið til og unnið þau afrek, sem
honum eru eignuð, eða hvort Þorgeirsboli hafi í raun og
veru dregið á eftir sér húðina og jafnvel lofað þeim Húsa-
Víkur-Lalla og Eyjafjarðar-Skottu að sitja á henni og nota
hana fyrir farkost. Allt slíkt er einkamál þjóðsagnanna.
Hitt er annað mál, að kirkjubækur geta stundum frætt oss
Um svo að kalla sjálfan afmælisdag nokkurra drauga, og
skal eg nefna nokkur dæmi því til sönnunar.