Eimreiðin - 01.10.1930, Blaðsíða 41
eimreiðin
SAGA ÚR SÍLDINNI
34S
inu, gengur niður eftir bryggjunni, staðnæmist fyrir aftan
gömlu konuna úr Vörinni, bítur í skroið og kallar:
— Mamma, farðu að koma heim.
En gamla konan heyrir ekki og hefur enn sálgað nokkrum'
síldum, áður en hann ávarpar hana aftur:
— Mamma, farðu að koma heim, ræfillinn þinn, — það er
komið undir lágnætti. Þú drepur þig á þessu. Og það er til
einskis hvort eð er.
En gamla konan er upp úr því vaxin að anza framar
nokkru þrefi og heldur áfram að kverka.
— Skyldi kerlingin ekki ætla að gegna, segir maðurinn vi&
sjálfan sig og grenjar síðan:
— Hættu þessu bölvuðu ónytjubaksi og dragnastu heim
áður en þú drepur þig alveg.
En þegar hann sér, að hún virðir að vettugi bænir hans
og skipanir, leiðist honum þófið, og hann grípur um slubbuga
handarveslingana á móður sinni og tekur af henni hnífinn.
Þá loks snýr gamla konan sér að honum, þótt með erfiðis-
munum sé, og horfir á hann tinandi, grallaralaus yfir þessart
óþekt í stráknum. Loks hreytir hún úr sér:
— Fáðu mér kutann minn, Siggi.
— Hvaða andskotans írafár er komið í þig, mamma, segir
sonurinn, gengur nú snarlega að henni og dregur hana út
úr þvögunni. Gamla konan streitist á móti og reynir að halda
sér í tunnubarm, en alt kemur fyrir ekki, sonurinn er svo
miklu sterkari, og tunnan veltur.
— Reyndu að smánast héðan burt og komast í bælið þitt,
áður en þú drepur þig, níræður auminginn upp úr körinni.
Hana, styddu þig við handlegginn á mér.
En móðirin streitist á móti og tautar:
— Eg skal lúberja þig, Sigurjón, ef þú hættir ekki þessari
bölvaðri óþekt og færð mér kutann.
En sonurinn hélt áfram að drasla móður sinni nauðugri
viljugri upp eftir bryggjunni, unz hún sá sinn kost vænstan
að fara að honum bónarveginn:
— Bíddu ögn við, Siggi minn. ... Heyrðu, Siggi minn,
vertu ekki að halda fyrir mér kutageyinu mínu úr því síldin
er komin. .. . Nú dugar ekki annað en hafa sig allan við.