Eimreiðin - 01.10.1930, Blaðsíða 80
eimreiðin
Dr. Annie Besant
og stjórnmálin.
Eflir Kristínu Matthíasson.
Það er gömul saga — sem þó altaf verður ný — að þegar
mikilmenni koma inn í þennan heim, fá þau kaldar kveðjur
fyrst í stað. Fáit er ömurlegra en að horfa upp á þá baráttu,
sem hvert stórmenni verður að heyja við mennina, sem það
vill hjálpa. Mannlegt eðli er svo undarlegt, að því er í fyrstu
uppsigað við það, sem horfir til heilla — þegar loks hefur
tekist að hrista það upp úr móki deyfðar og áhugaleysis. Of-
sóknir og lítilsvirðing eru kveðjur þær, sem hvert mikilmenni
fær, er það hefst handa til að létta þjáningar þessa jarðlífs.
Líf dr. Annie Besant er engin undantekning frá þessari
reglu. Fáir hafa orðið að þola meiri ofsóknir af mannanna
hálfu í upphafi starfs síns en hún. En þeir eru einnig örfáir,
sem hrósað hafa jafnglæsilegum sigri og hlotið hafa aðra
eins viðurkenningu fyrir lífsstarfið og hún.
Svo var andstaða á móti henni mögnuð, að á árunum
1870—80 þótti það varla kurteisi á Englandi að nefna nafn
hennar >öðruvísi en með lítilsvirðingarhreim í röddinni, eins
og hún heyrði til einhverjum óæðri heirni* — eftir því sem
W. T. Stead segir frá.
Arið 1924 er henni haldin samkoma í heiðursskyni í veg-
legasta sal höfuðborgarinnar, þar sem stórmenni þessarar
sömu þjóðar, þing og fulltrúar erlendra ríkja keppast um að
hylla hana og þakka henni afrek þau, sem hún hefur unnið.
Ekki þarf mikinn mann til þess að hreyta lítilsvirðandi
orðum að stórmenni — til hins þarf meiri sálarþroska: að
meta stóran anda að verðleikum og veita honum þá virðingu,
sem honum ber. Hér á landi hafa þau ummæli sést á prenti
um dr. Annie Besant, sem bera með sér litla þekkingu á því,
hvernig barist hefur verið fyrir mannréttindum og frjálsri
hugsun með nágrannaþjóðunum síðasta mannsaldur og hvern