Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Qupperneq 49
í þessu veðri varð úti piltur frá Merki á Jökuldal, ívar Magnús-
son að nafni. Hafði hann, ásamt öðrum, farið í göngu um morgun-
inn, en kom ekki til bæjar um kvöldið. Var hans strax leitað. Fannst
hann fljótlega. Hafði hann villzt af réttri leið og var örendur þegar
hann fannst.
Til marks um snjókyngið þennan vetur má geta þess, að rétt við
túnið á Fossvöllum rennur á, sem Laxá heitir. Hún er að jafnaði
vatnslítil og enginn farartálmi, en í leysingum á vorin getur hún
orðið mjög ill yfirferðar. Framyfir aldamótin var kjörfundur fyrir
Norður-Múlasýslu haldinn á Fossvöllum. Var hann oftast hafður að
vorinu, þegar áin var í mestum vexti. Minnist ég þess að talið var,
að kjósendur hefðu stundum lent í erfiðleikum við ána, þegar þeir
voru að sækja kjörfundi. Mun þetta hafa verið höfuðástæðan fyrir
því, að sumarið 1903 er sett brú á ána. Það broslega gerist svo í
sambandi við þetta að um vorið 1903, áður en brúin kemur fara
fram á Fossvöllum kosningar, en eftir það aldrei. Mátti því segja
að brú þessi kæmi á elleftu stundu. Brú þessi var vönduð trébrú,
byggð á háum stöplum, hlöðnum úr grjóti og steypu rennt í öll
samskeyti. Hún stóð á jafnsléttu og talsvert mikið haf undir hana.
Hún var sperrureist og yfirbygging nokkuð há.
Eg minnist þess heldur ekki að nokkurntíma legði snjó á brú
þessa, nema þennan vetur. En þá fór hún líka svo gjörsamlega í
kaf að hvergi bólaði á yfirbyggingunni. Varð snjókyngið svo óskap-
legt, að fyrirhyggjusamir menn töldu að snjóþyngslin mundu sliga
brúna. Var því lengi um veturinn starfað að því að moka snjónum
af henni. Voru það eingöngu menn af tveimur bæjum, Fossvöllum
og Hrafnabjörgum, sem að því unnu. Fyrir þessa vinnu var ekkert
greitt, en fólkið á þessum bæjum vildi ógjarnan missa brúna og
lagði þetta því fúslega á sig.
Annað dæmi um snjókyngi þessa vetrar var það, að heyi hafði
verið kastað í svonefndu Illalækjargili, sem er á milli bæjanna
Fossvalla og Hauksstaða. Það fór svo gjörsamlega í kaf, að það
fannst aldrei um veturinn. Heyið var að vísu ekki stórt, eitthvað á
milli 10 og 20 hestar. Var mikil vinna lögð í að finna heyið, því að
eins og nærri má geta var þess ærin þörf í slíkum vetri sem þessum,
en það kom fyrir ekki.
Mulaþing
47