Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Side 67
fjÖrðinn að Tangakaupstað. Þaðan inn að Hofi, sem áður er á
minnzt, upp yfir Iiofsháls að Hauksstöðum.
Þennan krók urðu félagar mínir að fara og voru því mun lengur
en ég, sem fór yfir heiðina. Ojá, það er nú það. Ætli það sannist
ekki hér, að fíflinu skal á foraðið etja. En hvað um það; ég fékk
að draga andann heima á Hauksstöðum þar til félagar mínir, sem
tóku krókinn, komu þangað. Minnir mig að það munaði tveim dög-
um eða svo.
Ef til vill tekur lesandinn eftir því, að ég segi Hauksstaðir, þegar
ég tala um æskuheimili mitt. Það geri ég viljandi, vegna þess að ég
vil ekki kenna það við fjallgarðinn Haug = Haugsfjallgarð, sem
er á milli Vopnafjarðar og Hólsfjalla. Ég hef þó lúmskan grun um,
að Hauksstaðir séu kenndir við fjallgarðinn Haug, en ekki hrað-
fleyga haukinn, fuglinn sem rennir sér örsnöggt úr háalofti niður
að bráð sinni og hremmir hana. Og þó ég sé ekki hneigður fyrir
ofbeldi, þá geðjast mér mun betur að haukum en haugnum, sem
minnir mig svo ónotalega á skítahaug, sem fullur er af hvers kyns
óþverra og ég neita því alfarið að kenna æskuheimili mitt við
nokkurn óþverra. Þetta var innskot.
Semsagt, eitt grátt síðsumarskvöld birtust félagar mínir á hlað-
inu á Hauksstöðum og verkstjóri minn sagði glottandi: „Þú ert þá
kominn hingað með kerrudjöfulinn.“ „Já,“ sagði ég, „en ekki er það
þér að þakka.“
„0, það er sami helvítis kjafturinn á þér og allri þinni ætt,“ sagði
verkstjórinn og spýtti mórauðu, „og komdu nú blessaður Víglund-
ur minn,“ og tók í hönd föður míns, sem mér sýndist vera svolítið
glettinn á svipinn.
Faðir minn tók kveðjunni vel og bauð næturgistingu. Þakkaði
verkstjórinn það en kvað of snemmt að setjast að, „og ætli við
röltum ekki hérna með línunni fram og upp í drögin, þá er sá kafl-
inn húinn. En þú þarft ekki að koma með Halli,“ sagði hann, „ætli
þér veiti af að lesa eitthvað gott yfir kerrunni áður en þú leggur
ineð hana á Haugsfjallgarð.“ „0, ég hef nú ekki vanið hana á mikið
guðsorð ennþá,“ svaraði ég, og þá skelltu allir viðstaddir upp úr.
Nú — ég má víst ekki segja nú-nú, Steinþór vinur minn á Hala
hefur víst einkarétt á því - morguninn eftir lagði ég enn af stað
MÚLAÞING - 5
65