Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Side 71
þarna stóð ég á bökkum Laxár, einnar fegurstu ár landsins. - Ég sá
það ekki þá og það var ekki fyrr en síðar, er ég gekk með Laxá frá
Helluvaði til Ljótsstaða í Laxárdal á fagurri sumarnóttu, að ég
skynjaði til fulls fegurð og dýrmæti Laxár og Laxárdals, en sá tími
var langt undan, er ég í þetta skipti kom ofan að Laxá.
Þá skeði fleira en eitt í senn. Ég leit til baka, hróðugur af því að
vera þó kominn hingað, jafnvel þó að nú væri þó nokkuð kast á
öðru kerruhjólinu. Ég sá félaga mína koma niður brekkurnar, ýmist
uppi í staurunum eða á jörðu niðri og nálgast stöðugt. Ég hlakkaði
til að fá hjálp, enda þótt ég væri nú orðinn tortrygginn á hjálp úr
þeirri átt.
Allt í einu hrökk ég hastarlega við. „Gott kvöld, drengur minn,“
var sagt að baki mér. Ég sneri mér snarlega við og sá fullorðinn
mann með grátt skegg og hár. Hann starði furðu lostinn á mig og
farartæki mitt og spurði hógværlega: „Hvaðan ber þig að með
þetta skrifli í eftirdragi, drengur minn?“ - Það var ekki fyrr en
nokkrum árum seinna að ég komst að því, að Þingeyingar kalla alla
sem eru yngri en þeir, sem þeir ávarpa „drengur minn“.
En nú var ég ekki í því skapi að vera neinn „drengur minn“, svo
að ég svaraði: „Ég kom nú niður í þessa dalskoru með það sem þú
sérð og ef þú lítur aðeins upp yfir skeggið á þér, þá geturðu séð
hálfvitana, sem elta mig“. Hann sagði ekki orð, horfði aðeins á
mig. Ég fór að hugsa um, hvort ég hefði nú rétt einu sinni orðið
mér til skammar með kjaftinum á mér og var órótt. En þá var allt í
einu klappað á öxlina á mér og sagt: „Ég sé að þú ert einn af síma-
mönnunum, drengur minn, en hvers vegna ert þú með þessa kerru í
eftirdragi?“
Mér var nú farið að geðjast vel að þessum manni, svo að ég
svaraði hógværlega: „Spurðu hálfvitana, sem koma þarna á eftir
mér, en getur þú vísað mér á vað yfir ána hérna?“
Hann brosti. „Það get ég,“ vísaði mér til vegar yfir ána og komst
ég það klakklaust.
Síðar um kvöldið komu félagar mínir einnig yfir, slógu tjöldum
og við átum og drukkum. Ég var í tiltölulega mildu skapi, bæði
vegna þess, að mér fannst ósjálfrátt, að það versta væri nú að
baki og svo var ég orðinn ægilega svangur, en Gvendur kokkur
Múlaþing
69