Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Page 133
GUÐMUNDUR EYJÓLFSSON Á ÞVOTTÁ
Runólfs þáttur
Runólfur hét hann og var kallaður og skrifaður Þorsteinsson, en
samt þótti einhver vafi leika á um faðernið. Var hann því á stundum
í gamni kallaður Runólfur Þorsteinsson sonur Jóns heitins Páls-
sonar. Vilborg hét móðir hans, og er mér ókunnugt um ætt hennar,
en var úr Austur-Skaftafellssýslu.
Runki, eins og hann var oft nefndur, kom hér austur í Álftafjörð
sunnan af Mýrum og móðir hans líka, en hvort hún kom með hon-
um man ég ekki, en á vegum hans var hún hér eftir að hún kom, dó
á Hofi og var þar í skjóli hans.
Eg hygg að Runki hafi fyrst lent í Rannveigarstaði til Jóns
Björnssonar, og mun það hafa verið í kringum 1885 eða 1886.
Ég sem þetta rifja upp man Runka vel. Hann var um það meðal-
maður á hæð en grannvaxinn, rauðbirkinn í andliti með rautt
skegg á efrivör, og sneri hann oft upp á það af miklum ákafa er
honum var mikið í hug sem oft vildi verða því hann var áhyggju-
maður mikill og snerist hugur hans um að komast yfir efni; líka
deplaði hann augum svo ótt og títt að lítt mátti auga á festa, var það
kallað að drepa tittlinga.
Ekki heyrði ég annað en hann þætti verkmaður í meðallagi, iðinn
og ástundunarsamur. Einfaldur mun hann hafa verið í meira lagi
og trúgjarn úr máta, og vildi það mörgum til að nota sér trúgirni
Runka. En í viðskiptum var hann ekki svo grænn og mun hafa séð
um sinn hag.
Hann komst fljótt yfir talsverðan kindastofn, en óvæginn var
hann við þær og mátti á stundum segja að það gengi óviti næst.
Múlaþing
131