Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1974, Page 148
höfðu flækzt frá Englandi í Hjartarstaði eftir leiðum sem mér eru
ekki kunnar. Þeir voru með stífum sólum úr vænu leðri og forláta
skíðaskór. Svona búinn og auk þess með nestisbita frá frænku
minni meðferðis þótti mér allir vegir færir, ákvað að fara Afréttar-
skarð og hlakkaði til að ná góðu rennsli úr skarðinu og langleiðina
heim undir bæ.
Venjulega er fljótfarnara uppyfir en ofanyfir því að undan-
hallinn er lengri Héraðsmegin og þægilegra skíðaleiði en niður í
Seyðisfjörð.
Svo hélt ég ótrauður af stað um klukkan 11 og gerði ekki ráð
fyrir nema þriggja stunda ferð.
Þegar ég kom út í Vestdal skall bylurinn á. Ég held það hafi
hvarflað að mér að snúa við, en ekki gerði ég það. Mér gekk vel
upp brekkurnar alla leið upp, enda var lygnt í brekkunum en dimm-
viðri. Ég komst rétta leið upp í skarðið, en þar skall á mig ofsarok
og svartabylur af norðaustri. Nú varð mér ljóst að betra var að
fara með gát því að úr skarðinu hallar í tvær áttir og ég varð að
fara bil beggja. Ef ég lenti of sunnarlega átti ég á hættu að lenda
í klettagljúfur Gilsár, en ef ég sveigði um of til norðurs gat farið
svo að ég lenti í Loðmundarfjörð. Það hefur marga hent á þessari
leið, og í svona veðri gat verið hætta á að ganga fyrir hamra sem
víða eru á þeirri leið. Utsýni var ekkert og því ekkert að fara eftir
nema vindstaðan.
Ég lagði nú af stað með vindinn á hægra gagnauga og gætti
vindstöðunnar vel. Auk þess reyndi ég að fara skáhallt undan, en
hallinn er lítill og víða enginn svo að ekki er gott að átta sig á
honum. Svo gekk ég og gekk og aldrei rofaði til. Ég hugsaði lítið
um villu lengi vel og treysti vindstöðunni, en þegar klukkan var
orðin þrjú og ég búinn að vera um fjórar klukkustundir á göngu
fór mér að detta í hug að mig hefði borið af leið. En ég taldi
leiðið eiga þar sök, því að það var stirðara en daginn áður enda
frostlítið. Og áfram hélt ég rúman klukkutíma, enn í þeirri trú að
þá og þegar kæmi ég niður á jafnsléttu eða yrði var einhverra
kennileita sem ég þekkti.
Allt í einu rofaði aðeins til og ég grillti í hæðir á vinstri hönd
undan veðri. Þá var orðið frostlaust og stamt skíðaleiði. Ég taldi
146
MÚLAÞING