Norðurljósið - 01.01.1976, Blaðsíða 23
NORÐURLJÓSIÐ
23
vera á beit í klukkustund. Sólin skein heitt, og mér varð ljóst,
hve aumur og þreyttur ég var, meðan ég horfði á hana bíta.
Er liðin var ein stund, lagði ég hnakkinn aftur á hryssuna og
steig á bak. Mér var heitt, ég var þreyttur og svangur og blátt
áfram hræddur. Ég hafði sagt öllum, að ég ætlaði í menntaskóla.
En auðvelt er að tala. Ég var félaus, og hvar átti ég að gista
í nótt? Þetta Texas síðdegi var langt og heitt. Óróleiki minn óx,
og ég fór að falla frá Guði.
Faðir minn hafði lesið biblíuna við arineldinn aftur og aftur
á kvöldin, meðan hann og móðir mín voru á lífi. Aftur og aftur
hafði hann sagt við mig: „Sonur minn, lifðu fyrir Guð. Þú
munt deyja glaður, ef þú gerir það.“ Ennþá var ég að lifa fyrir
Drottin. Ég hafði aldrei dansað, aldrei reykt, aldrei smakkað
áfengi í nokkurri mynd, aldrei drýgt hór, aldrei stolið. Hvaða
gagn hafði ég haft af þessu? ,,Góður“ kristinn maður hafði
lánað alla peninga mína og vildi ekki borga mér þá aftur. Og
hér var ég matarlaus, heimilislaus og félaus!
Eftir því sem leið á þetta langa síðdegi, varð ég æ beiskari
og fráfallnari í hjarta mínu. Ég sagði við sjálfan mig: „Þessi
sunnudagaskóla lífsháttur er ekki handa mér. Þegar ég kem
til Decatur, ætla ég að lifa og láta alveg eins og aðrir.“
Síðdegi þetta var langt, heitt og rykmikið. Er líða tók að
kvöldi, varð loftið skýjað, eldingar leiftruðu og þrumur kváðu
við. Það var elcki gott að vera úti á sléttunni í slíku veðri. Ég
yrði rennblautur ásamt hrossi og hnakk. Sennilega mundi rigna
alla nóttina.
Allt í einu kom ég að gamla þjóðveginum, sem lá frá Jacks-
boro til Decatur. Vinstra megin við hann var staðarlegt að líta
heim, stórt, hvítt hús og stórar hlöður. Ég fór af þjóðveginum
upp litla malarbraut að hliði og hvítri girðingu. Dropar fóru að
detta úr lofti um leið og ég hrópaði: ,,Halló!“
Gráhærður maður kom út úr dyrunum. Hann kallaði: „Halló,
farðu af baki.“ Ég fór af baki og gekk upp götuna. Hann kom
gangandi á móti mér í regnúðanum.
„Ég er á leið til Decatur,“ sagði ég honum. „Ég ætla að vera
þar í menntaskóla.“ Ég var svo hreykinn af því, að ég ætlaði í
menntaskóla. „Það ætlar að fara að rigna,“ hélt ég áfram, „og
ég var að hugsa, hvort þér væri sama, ef ég lægi í hlöðunni þinni
í nótt.“
„Jæja, mér væri alveg sama, en það er heils árs uppskera af
korni þar. Kveiktu ekki á eldspýtum. Þú reykir ekki, er það?“