Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 2
2 TMM 2007 · 1
Frá ritstjóra
Gleðilegt nýtt ár, kæru áskrifendur. Enn hefst nýr árgangur Tímaritsins, nú sá 68.,
og ég vil vara ykkur við því að í ár verður áskriftargjald TMM rukkað í einu lagi
til að spara þjónustugjöld til bankanna. Vonandi veldur það ekki teljandi vandræð-
um. Árgjaldið hækkar ekki.
Síðasta hefti – Grýluheftið – vakti meiri athygli fjölmiðla en venja er vegna
greinar Dagnýjar Kristjánsdóttur, „Latibær er skyndibiti“. Hún var tekin til
umræðu bæði á Rás 1 og Stöð 2 og mikið af athugasemdum barst ritstjóra í bréfum
og símtölum. Mörg voru eins og eftirfarandi frá Kristínu: „Ég hoppaði hæð mína
yfir Latabæjargrein Dagnýjar Kristjánsdóttur, hef aldrei þolað það batterí – og
skemmti mér reyndar ekki síður yfir tilvitnunum í gagnrýni Jökuls Valssonar á
Kistunni, ég hafði ekki lesið hana.“ Jónas sagðist hafa haft „kvikindislega gaman
af Latabæjargreininni“, Eiríki fannst „gaman að sjá Dagnýju flengja íþróttaálfinn,“
og Sólveig skrifaði: „Ég var að klára greinina hennar Dagnýjar í tímaritinu og geng
núna með hana milli allra barnaforeldra í vinahópnum og prédika. Þessi grein er
alveg frábær.“ Ekki bárust nein andmæli til ritstjóra en þau birtust á vef Stöðvar 2.
Bestur þar þótti okkur Birgir nokkur sem skrifaði þetta: „Það vantar eikkað í haus-
inn á þessum tveim stöllum. Þær eru örugglega bara að þessu til að bera athygli að
blaðinu þeirra.“ Góður!
Best var þó að fá fína skopmynd eftir Halldór Baldursson í Blaðinu 25. nóv. Á
myndinni rekur íþróttaálfurinn Grýlu gömlu burt með þessum orðum: „HEY
LADY!! Hingað og ekki lengra! Við í fyrirtækinu erum komnir með conclusive
einkarétt á að hræða litlu börnin til að vera þæg og góð.“
Áðurnefnd Kristín var líka ánægð með greinina um Hallgrím Helgason og
Rokland, eins og fleiri, og margir kunnu að meta virðinguna sem sýnd var Vísna-
bókinni, þeirri þjóðargersemi, með grein Önnu Þorbjargar og kápumynd Halldórs
Péturssonar. Grein Kristínar Rögnu um myndskreytingar vakti ánægju og virtist
beinlínis hafa áhrif á gagnrýnendur í síðasta flóði, og mörg hjörtu höfðu slegið í
takt við hjarta Gísla Sigurðssonar í grein hans um íslenska málpólitík. Um þá grein
barst langt bréf frá Heimi Pálssyni í Svíþjóð sem birt er í bréfadálki heimasíðunn-
ar www.tmm.is.
Önnur Kristín skrifaði bréf þar sem sagði m.a.: „Ekki vissi ég að hann Ari yfir-
læknir á Skaga Jóhannesson væri svona gott skáld. Við lásum hann upp hérna
nokkrar skáldkonur í stofunni minni á dögunum í súkkulaðiútgáfuteiti, alveg and-
aktugar. Héldum að hann væri bara óbreyttur læknir.“ Ljóð Þórarins Eldjárns
kættu líka marga og spænska smásagan sömuleiðis. Aðdáendur Gunnars Lárusar
Hjálmarssonar eða dr. Gunna fögnuðu því líka að sjá efni eftir hann í heftinu.
Við þökkum Landsbanka innilega fyrir stuðninginn með því að kaupa auglýs-
inguna innan á kápu allt síðasta ár, og kynnum hreykin nýjan auglýsanda og
stuðningsaðila: World Class á Íslandi.
Silja Aðalsteinsdóttir