Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 91
B ó k m e n n t i r
TMM 2007 · 1 91
Ástvin nýtur sín í sveitinni því Enok kemur fram við hann eins og jafnoka
sinn, uppfræðir hann um dýralíf og náttúru og segir honum alls kyns sögur af
sjó og af landi. Ástvin kemst í nána snertingu við náttúruna, lærir að tala við tré
og veiða sel og þroskast heilmikið, enda heldur Enok honum einnig að námi,
lætur hann reikna, skrifa eftir upplestri og lesa kvæði og sögur. Í heimsókn fá
þeir sjálfan Jóhannes Sveinsson Kjarval sem kemur fram við strákinn af virð-
ingu, tekur hann með sér út að mála og leiðbeinir honum í málarakúnstinni.
Þetta viðmót Kjarvals, Enoks og annarra sem Ástvin hittir í sveitinni eykur
sjálfstraust hans til mikilla muna svo þegar hann kemur aftur til Reykjavíkur
um haustið býður hann föður sínum birginn, biður hann að hætta að drekka
vín og hætta að vera reiður við heimilisfólkið (201). Sú ræða blíðkar ekki
harkalegt skap föðurins sem gerir sér lítið fyrir, tekur sumarlaun Ástvins
traustataki og hættir nær alveg að tala við drenginn.
Um tíma er heimilislífið tíðindalítið en þegar Enok tekur sig til og ræðir við
föðurinn um ástandið á heimilinu fer allt í háaloft með afdrifaríkum átökum,
uppgjöri og heilmiklum hörmungum. Heimili Ástvins leysist upp og hann er
sendur í sveit til ættingja. Þar áttar hann sig á að hann er hvorki barn né ungl-
ingur lengur. Hann þarf að vera sterkur, þora að vera einn, geta séð um sig
sjálfur, vera fullorðinn (270). Þannig verður leiðin að heiman leiðin heim og
Ástvin heldur aftur til Reykjavíkur staðráðinn í að hjálpa sínu fólki.
Leiðin að heiman er að mörgu leyti heillandi frásögn og lýsingar á hugar-
heimi hins misþroska drengs yfirleitt sannfærandi. Stærstan hluta bókarinnar
er hann í návígi við Enok sem talar við hann eins og fullorðinn mann og því
þroskast strákur bæði í máli og hugsun eins og verða vill þegar komið er fram
við börn af umhyggju og ást. Heimilislífinu í Reykjavík lýsir Ari Trausti
óhugnanlega vel, því ófremdarástandi sem skapast þegar einn fjölskyldumeð-
limur heldur öðrum í helgreipum ótta og óöryggis, og persónusköpun er í
flesta staði vel úr garði gerð. Það eru helst endalok sögunnar sem veikja hana,
því hörmungarnar eru svo yfirdrifnar að lesanda verður eiginlega um og ó. Svo
mætti einnig setja spurningarmerki við óvænt þroskastökk Ástvins í blálokin
þó vissulega sé til í dæminu að bæði börn og fullorðnir þroskist á einni nóttu.
En þrátt fyrir þessa hnökra, sem vissulega eru smekksatriði, er Leiðin að heim-
an ágætasta lesning, full af heitum tilfinningum og ljóðrænu.