Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 62
62 TMM 2007 · 1
Berlín über alles
Í miðju kafi við að ganga frá þessu hefti til prentunar fékk ég tækifæri til að
fara í menningarreisu til Berlínar. Ekki besti árstíminn, var mér ítrekað sagt,
en það er auðvitað bull. Veðrið var skítlegt, vissulega, en þegar veðrið er verst
er menningin best, og framboðið var alltof gott fyrir bara eina viku.
Af þremur leiksýningum, tveimur bíómyndum, einum tónleikum og fjölda
safna og sýninga skagar tvennt upp úr. Annað var Brúðuheimili Ibsens undir
stjórn Thomasar Ostermeier í Schaubühne-leikhúsinu, hitt var fyrsta kvik-
mynd leikstjórans Florian Henckel von Donnersmarck, Das Leben der Anderen
(Líf annarra, tilnefnd til Óskarsverðlauna þegar þetta er ritað). Fast á hæla
komu blóði drifin sýning Deutsches Theater á Óresteiu eftir Æskílos og dúndr-
andi japanskir trommutónleikar, TAO, í Admiralspalast.
Getur Nóra komið á óvart í sextánda skipti sem maður sér hana? Já, ekki
varð því neitað þegar skothvellurinn í lokin kippti manni upp úr sætinu. Fram
að því hafði maður verið svo öruggur um að vita hvernig færi – eins og grun-
lausir áhorfendur að Lé konungi á frumsýningu þess verks fyrir fjögur hundr-
uð árum. Þeir héldu að sagan endaði eins og hjá fyrirmyndunum og Lér og
Kordelía myndu lifa hamingjusöm saman eftir sáttina. Þar fór Shakespeare illa
með þá sem þykjast vita – eins og Ostermeier í sinni Noru. Hann flytur verkið
til samtímans, svo æpandi samtíma að Helmer er að taka myndir af krökk-
unum sínum á símann sinn og barnapía hjónanna er ættuð frá Jamaíku eða
þvílíkum slóðum. En það furðulega er að það þarf ekkert að umskrifa; þetta
gengur bara! Sviðið var heilt hús á þremur hæðum sem stóð frítt á sviðinu og
snerist í hringi – rosalega flott (Jan Pappelbaum) – og leikurinn afbragð.
Fremst meðal jafningja var Anne Tismer í aðalhlutverkinu, ljós og nettur
taugaveiklaður orkubolti, en karlmennirnir í lífi hennar voru ekki miklu síðri,
Jörg Hartmann ábyrgur en nokkuð stressaður Helmer, hörku bissnissmaður,
nýorðinn bankastjóri! Lars Eidinger ungur fyndinn og hýr Rank læknir og Kay
B. Schulze rosalega nervus Krogstad. Ég hefði viljað sjá líka nýja uppsetningu
Ostermeiers á Heddu Gabler sem líka er flutt til samtímans. Ef hún gengur eins
vel og Nora þá verður hún enn á fjölunum þegar ég fer næst til Berlínar.
Líf annarra gerist á 9. áratug 20. aldar í Austur-Berlín og segir frá duglega
Stasimanninum Wiesler (Ulrich Mühe), meistara yfirheyrslutækninnar við
Stasiskólann, sem fær það verkefni að fylgjast náið með leikskáldinu Georg
Dreyman (Sebastian Koch) og konu hans, leikkonunni Christu-Mariu (Martina
Gedeck) til að athuga hvort þau eru að gera eitthvað ólöglegt. Andstæðurnar
eru skýrt upp dregnar milli Wieslers og ungu hjónanna, annars vegar er ein-
mana einangraður einfari, hins vegar hamingja ungra fallegra manneskja. Því
fer svo að harðasti naglinn linast – Wiesler verður ástfanginn af Georg og
Christu-Mariu. Meira segi ég ekki – nema að ég hlakka til að sjá þessa mynd
textaða hér heima (sem fyrst) því þýskan mín er ekki eins góð og hún var.
Oresteia í Berlín var eins ólík Bakkynjum á Íslandi og hugsast gat. Sviðs-
myndin fjalirnar tómar, tvær grunnar hillur á sviðsbrúninni, engir búningar
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n