Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 129
U m r æ ð u r
TMM 2007 · 1 129
hans; vanþakklátir Frakkar voru ekki eins mildir við suma velgjörðamenn
sína, til dæmis Marie-Antoinette …
Að öllu gamni slepptu þá voru tillögur Halldórs sérviskulegar af því þær
voru fullkomlega ófaglegar. Eflaust er íslensk stafsetning að ýmsu leyti í ósam-
ræmi við framburð eins og verða vill í tungumálum sem eiga sér langa rithefð,
og auðvitað er hægt að gera breytingar á stafsetningu og dæmi um slíkt má
finna í öllum málum. Til dæmis var bókstafurinn z felldur niður úr íslensku
upp úr 1970 þannig að menn skrifuðu ekki lengur íslenzkur (þótt nafnið Zoëga
héldist óbreytt); meðal breytinga sem gerðar voru 1929 var að é kom í staðinn
fyrir je. Fleiri breytingar mætti vissulega gera en forsendurnar verða að vera á
hreinu. Halldór valdi bara tvö eða þrjú atriði úr íslenskri stafsetningu og ákvað
að samræma þau. Þar að auki voru atriðin sem hann valdi algerlega yfirborðs-
leg: það þarf ekki að segja Íslendingi að hann eigi að bera orðið hringing fram
hríngíng af því það er innbyggt í máltilfinninguna. Eins verður að bera kenndi
fram kendi af því að í íslensku verður tvöfaldur samhljóði einfaldur á undan
öðrum samhljóða. Málið versnar enn við það að stafsetningin kendi rýfur
samræmið í orðinu sem er áfram skrifað með nn til dæmis í kenna. Ef mein-
ingin með breytingunum var að færa stafsetninguna nær framburði, eins og
virðist vera, þá gekk Halldór alls ekki nógu langt. Orðin heima og heyra ætti
annaðhvort að stafsetja heima og heira eða heyma og heyra, því hví skyldi eiga
að stafsetja sama tvíhljóðið á ólíka vegu? Almennt mætti spyrja hvers vegna
gera eigi greinarmun á í og ý sem veldur íslenskum skólabörnum endalausum
höfuðverk, skrifum því Ísland og ísa eða Ýsland og ýsa – eða förum með y eins
og z og fellum það niður. Mun einfaldara kerfi og samkvæmara sjálfu sér yrði
til ef við skrifum Ísland, ísa og vinna, ifir. Og hvers vegna ætti að stoppa þar?
Úr því að illa rímar ekki við trilla ætti að stafsetja samkvæmt framburði og
skrifa idla, kadla, edlefu. Af því að við segjum Keblavík, steidn og vass en ekki
Keflavík, steinn, vatns … Hver sem hefur lágmarksþekkingu í íslensku getur
bætt endalaust við listann. Þó ákvað Halldór að takmarka sig við breytingar af
taginu laung kensla. Hvers vegna? Sennilega af því hann langaði til þess.
Bak við svona heimskulegt þref eru mörg alvarleg álitamál. Áður en spurt er
hvernig og hvers vegna eigi að breyta stafsetningu þarf að íhuga til hvers hún
er. Auðvelt er að byrja á því sem hún er ekki: meginhlutverk stafsetningar er
ekki að sýna ítarlegan framburð. Í því skyni hafa málvísindamenn búið til
nokkuð sem heitir hljóðritun; þar stendur eitt tákn fyrir eitt hljóð og sama
hljóð er táknað með einu og sama tákninu. Hljóðritun glímir við sín eigin
vandamál en þau koma okkur ekki við hér og nú. Í grundvallaratriðum er
reglan sú að sá sem þekkir táknin getur lesið rétt hljóðritaðan texta á máli sem
hann kann ekkert í. Venjuleg stafsetning reynir ekki að líkja eftir framburði
heldur sýnir hún orðin í mynd sem notendur málsins þekkja og skilja undir
eins. Til að hafa gagn af stafsetningu þarf maður að þekkja tungumálið, og
kunnátta í málinu segir manni þá strax hvernig eigi að bera orðið fram. Á
ensku er orðið wind borið fram á ólíkan hátt í The wind is blowing og í Wind
up the clock! Enginn enskumælandi maður lendir í vandræðum með þetta þótt