Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 72
B ó k m e n n t i r
72 TMM 2007 · 1
ættu að standa eins og í greinasafni bæði í efnisyfirliti og á viðeigandi stöðum
í bókunum.
Að breyta sögu
Þess var naumast að vænta að miðaldasaga íslenskra bókmennta breyttist þótt
hún væri skrifuð eina ferðina enn. Enda urðu fá stórtíðindi í ÍB I–II. Það voru
vissulega ný efnistök bæði um prósa og bundið mál frá því sem mátti lesa í
Nordisk kultur þeirra Sigurðar Nordals og Jóns Helgasonar. En lítið um aldeil-
is nýjar uppgötvanir.
Nýlundurnar byrjuðu aftur á móti með þriðja bindinu og þá fyrst og fremst
vegna þess að l’enfant terrible íslenskrar bókmenntasögu, Matthías Viðar
Sæmundsson, kom til skjalanna. Utan Sigurðar Nordals, femínistanna, Helgu
Kress og annarra, eru ekki margir sem hafa skilið eftir sig önnur eins spor í
íslenskri bókmenntasöguritun á 20. öld og Matthías. Og þá skiptir engu máli
hvort maður var alltaf sammála honum (það gildir nú líka um Nordal og fem-
ínistana).
Matthías Viðar sprengdi ramma bókmenntasögunnar í þriðja bindinu.
Hann hafði fengið mjög afmarkað viðfangsefni, upplýsingaröld, sem venjulega
var fljótafgreitt, og hann gerði það að meginatriði bindisins. Strúktúrellt varð
þetta óskapnaður, en maður getur hins vegar verið þakklátur eftirá. Það hafði
vantað í íslenska bókmenntasögu þann kaflann sem Matthías skrifaði!
Á tímabilum þegar -tíkur og -ismar passa sæmilega vel er alltaf hætta á að
menn sjái ekki trén fyrir skógi, einstaklingar gleymist af því þeir falli ekki eins
vel inn í heildarmyndina og aðrir. Það sýnist góðra gjalda vert að á síðasta hluta
19. aldar og fyrri hluta hinnar 20. er dustað ryk af ýmsum höfundum sem annars
hefur lítið verið sinnt. Auðvitað má alltaf deila um hlutföll, alltaf spyrja hvort
þessi eða hinn höfundurinn sé nógu merkilegur til þess að standa við hlið sumra
annarra. Það má spyrja hvort einnar bókar maður eins og Sigurður Nordal fái
ekki óþarflega mikið pláss sem skáld, þar sem hefði verið full ástæða til að fjalla
mjög rækilega um áhrif hans á samtímann með skrifum um bókmenntir, að
ógleymdum fyrirlestrum hans. Hún amma mín fór ein saman ríðandi frá Mýri í
Bárðardal til Akureyrar til þess eins að hlusta á hann flytja fyrirlestur!
Alltaf má deila um hvort skynsamlegt sé að afmarka áratugi í íslenskri
bókmenntasögu – og reyndar er fróðlegt að horfa á efnisyfirlit síðustu bind-
anna tveggja. Þar opinberast vandi sem ekki hefur tekist að leysa. Ef ég tek sem
dæmi skáldsagnahliðina í fimmta bindi þá er hún svona eftir aðalfyrirsögnum:
Sagnagerð á þriðja áratug aldarinnar, Lausamálsbókmenntir á fjórða áratugn-
um (reyndar rangnefni því það er alls ekki fjallað um allar tegundir lausamáls),
Árin eftir seinna stríð (eðli málsins og tímatalsins segir manni að þetta séu öll
ár eftir 1945, en svo er ekki, því næst kemur:) Nýstefna í sagnagerð 1960–1970
og loks Sagnagerð eftir 1970. Við hliðina á þessu hlaupa svo kaflar um ljóð-
listina, leikritin og þjóðlegan fróðleik og sannast sagna er sá sem hér skrifar
farinn að hugsa: „hann hljóp út um víðan völl.“