Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 114
114 TMM 2007 · 1
D a n s
Sesselja G. Magnúsdóttir
Margbreytileiki danslistarinnar
Íslenskir dansunnendur áttu kost á að sjá marga ólíka dansviðburði árið 2006,
og má segja að margbreytileiki listformsins hafi kristallast í sýningum ársins.
Þó skal tekið fram að allt voru þetta nútímadanssýningar. Mig langar til að
skoða fjögur dæmi um það sem birtist íslenskum áhorfendum síðastliðið ár og
velta fyrir mér hvað einkenndi þessi verk og hvað þau segja okkur um nútíma-
listdans. Aðeins eitt þessara fjögurra var auglýst sem dansverk. Hin þrjú voru
kynnt undir merkjum dansleikhúss, en það hugtak hefur verið fyrirferðarmik-
ið í allri umræðu um dans undanfarið. Það lýsir kannski best þeirri tilhneig-
ingu sem skýrust var í verkum ársins, það er að sveigja frá hefðbundnum
danshreyfingum og danssporum en sækja í staðinn í sjóði annarra listforma.
Dans/dansleikhússýningarnar fjórar sem ég byggi vangaveltur mínar á eru
sýning brasilíska dansflokksins Grupo Corpo á verkunum Lecuona og Onqotô,
dansleikhúsverk Pinu Baush, Água, dansleikhúsverk Ernu Ómarsdóttur og
Emil Hrvatin, Við erum öll Marlene Dietrich og dansleikhúsverk Íslensku
hreyfiþróunarsamsteypunnar, Meyjarheftið.
Dansinn er hreyfing
Einn af hápunktum Listahátíðar í Reykjavík í maí 2006 var sýning brasilíska
danshópsins Grupo Corpo í Borgarleikhúsinu. Þetta var kraftmikil sýning við
skemmtilega suðurameríska tónlist sem skildi áhorfendur eftir glaða og reifa.
Dansverkin reyndu mjög á líkamlega og tæknilega getu dansaranna og glöddu
auga áhorfenda, fengu þá til að dást að möguleikum mannslíkamans og ekki
síður mögulegu samspili einstaklinga í hreyfingu.
Danshöfundurinn/listamaðurinn náði til áhorfenda með hjálp tónlistarinn-
ar og líkama dansaranna. Hreyfingin var í fyrirrúmi, en að mestu voru þetta
skilgreindar hreyfingar og þekkt spor. Uppsetning og sköpun verksins var með
hefðbundnu sniði: danshöfundur semur dansverk við tónlist, dansarar dansa
verkið og hafa innan ákveðinna marka lagt sitt í sköpunina. Í sýningunni styð-
ur tónlist og sviðsmynd stemninguna í hreyfingunum auk þess sem búningar
hæfa dansverkinu vel. Efni dansverkanna skírskotar að einhverju leyti til sam-
félagsins sem við lifum í en verkin voru að mestu átakalaus fyrir áhorfendur;
engu var ógnað í tilveru þeirra. Flokkurinn var skipaður nánast jöfnum fjölda