Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 4
4 TMM 2007 · 1
Að þýða Jónas með stuðlum
Viðtal við Dick Ringler sem
þýðir Jónas Hallgrímsson á ensku
16. nóvember í haust verða liðin 200 ár frá fæðingu listaskáldsins góða,
Jónasar Hallgrímssonar, og er viðbúið að allt þetta ár verði „Jónasarár“
meðal Íslendinga hvar sem þeir búa. Enginn maður hefur gert meira til
að kynna Jónas fyrir heiminum en bókmenntafræðingurinn Dick
Ringler sem lengi var prófessor í enskum og norrænum bókmenntum
við University of Wisconsin-Madison í Bandaríkjunum. Meðal annars
setti hann á fót heimasíðu Jónasar með margvíslegu efni, þar á meðal
þýðingum ljóða hans á ensku og lestri þeirra á íslensku, http://www.
library.wisc.edu/etext/jonas/, og gaf út bókina Bard of Iceland (Univer-
sity of Wisconsin Press 2002) með upplýsandi og skemmtilegri ritgerð
um Jónas, líf hans og skáldskap, þýðingum sínum á mörgum ljóðum
hans og ítarlegum skýringum á þeim. Þetta er án efa merkasta bók sem
komið hefur út um íslenskt ljóðskáld á erlendu máli og um leið áhuga-
vert fræðirit um ljóðaþýðingar.
Þegar Gunnar Karlsson sagnfræðingur, eiginmaður þeirrar sem hér
ritar, var að skrifa Íslandssögu sína á ensku, Iceland’s 1100 Years (Hurst
& Company, London 2000), kom hann einhvern tíma heim úr vinnunni
himinlifandi glaður og sagðist hafa fundið þýðingu á kvæðinu „Ísland“
á ensku sem hann gæti notað, sem segði á ensku það sem Jónas segði í
frumgerðinni og á sama hátt. Fram að því hafði ævinlega skort annað
hvort á form eða inntak til að ljóðið segði það sama á ensku og íslensku
og þýðingin því verið ónothæf til að sýna það sem sýna átti. Þessi krafta-
verkaþýðandi reyndist heita Dick Ringler, og þýðingin á „Íslandi“ var
ekki sú eina sem náði ótrúlega vel tóni, anda og ytri svip frumljóðanna.
Þarna var kominn enskumælandi maður sem orti eins og Jónas endur-
borinn!