Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 87
B ó k m e n n t i r
TMM 2007 · 1 87
þegar litið er um öxl. Heimspekilegar forsendur verksins eru sennilega ekki
aðrar en þessar: Að segja sannleikann. Aðrar merkilegri forsendur eru ekki til.
Fagurfræði þess mætti (fremur en með tuggum um raunsæi) lýsa sem vilja til
að meiða. Það eru til fleiri heimar en velmegun, það er til raunveruleg fátækt,
lágkúra, lífshætta, eymd, og þessi bókmenntalegi vilji til að meiða er nokkurs
konar tilraun til að finna kjarnann í manneskjunni – ná inn í kviku. Þegar
fagurfræði er lýst með slíkum hætti: vilji til að meiða, þegar henni er lýst með
svo almennum og ópersónulegum hætti vaknar spurningin: Meiddi verkið þig
þá ekki? Svarið er jú, verkið meiðir. Þetta er velheppnuð bók og hún meiðir
mann, eins og hún ætlar sér að gera, eins og allar bókmenntir ætla að gera því
þegar upp er staðið eru ekki til nein ólík svið bókmennta, þær eru allar á sviði
blóðs og undar.
Sólveig Ólafsdóttir:
Að yrkja sína Höfuðlausn
Ólafur Gunnarsson: Höfuðlausn. JPV útgáfa 2005.
Skáldsagan Höfuðlausn eftir Ólaf Gunnarsson kemur í kjölfar stórvirkjanna
Öxin og jörðin og þríleiksins Tröllakirkjan, Blóðakur og Vetrarferðin. Þetta er
lítil bók að umfangi sé miðað við fjölda blaðsíðna og sögupersóna fyrri bóka.
Hér er sögutíminn fyrstu ár 20. aldar og sögusviðið afmarkast að mestu leyti
við þorpið Reykjavík.
Jakob er maður nefndur, þrítugur smiður og bifreiðareigandi. Hann er mark-
aður erfiðum uppvexti en virðist hafa komið ár sinni vel fyrir borð. Í fangið á
honum koma allir helstu viðburðir Íslandssögunnar á árunum rétt fyrir 1920 og
þar ber hæst komu kvikmyndahóps frá Danmörku, sem er að vinna að bíó-
myndinni eftir Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson. Jakob fylgir
þessum hópi eftir og hlotnast það hlutverk að skrifa pistla í Morgunblaðið um
ferðir hans um tökustaði hérlendis. Verður hann aldrei samur eftir. Jakob verð-
ur ástfanginn af einni leikkonunni, Elisabeth, sem daðrar við hann, sefur jafn-
vel hjá honum en virðir hann síðan ekki viðlits. Eftir kynnin við þennan litríka
hóp lætur Jakob sig svo dreyma mikla og stóra rithöfundardrauma.
Kona er nefnd Ásthildur og er kaupmannsdóttir úr Dölunum. Hún er komin
til Reykjavíkur til að læra gullsmíðar eftir að hafa misst móður sína úr park-
insons sjúkdóminum og grunar að sjúkdómurinn búi einnig í henni. Grun-
urinn reynist réttur. Hún og Jakob taka saman og byrja búskap í húsinu Skuld
vestast í Vesturbænum þar sem Ásthildur býr manni sínum gott heimili og
hvetur hann og styrkir á allan hátt í ritstörfunum. Þau eignast litla stúlku –
sem fer nánast alveg fyrir ofan garð og neðan hjá Jakobi. Sjúkdómur Ásthildar