Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 121
L e i k l i s t
TMM 2007 · 1 121
sé þannig sem við þroskumst, lærum að skilja náungann og þekkja sjálf okkur
betur.
Í samræmi við þetta er öll hreyfing á sviðinu í Bakkynjum, í uppsetningu
Þjóðleikhússins, í takt við líkamstjáningu Díonýsosar. Fylgjendur hans lík-
amna það sem hann er og boðar. Skilyrðislaust. Díonýsos kemur í byrjun
verksins skjálfandi upp úr vatnslind og klæðir sig í sundurklippt jakkaföt.
Skjálftinn tjáir sammannlegan sársauka og þann sársauka sem Díonýsos hefur
mátt þola. Hann hafði nefnilega marga fjöruna sopið svo að segja allt frá getn-
aði. Sundurlimaður var hann (sbr. jakkafötin) og soðinn, fæddur í tvígang,
endurlífgaður nokkrum árum síðar og að lokum gerður vitstola. „Sársaukinn,
eðli hans og útrás er sá öxull sem harmleikurinn snýst um,“ skrifar leikstjórinn
í leikskrá. Enda fóru menn í leikhús á tímum harmleikjaskáldanna til að upp-
lifa kaþarsis (hreinsun), fá útrás fyrir ótta sinn og þjáningu.
Andstætt eðlishvöt og innsæi sem Díonýsos boðar er Penþeifur, konung-
urinn í Þebu, fulltrúi rökhugsunarinnar. Rökhugsunin segir okkur að sleppa
okkur ekki, gera nú ekkert að óhugsuðu máli og lifa ekki á brúninni. Spurn-
inguna um að fylgja hjartanu eða láta heilann ráða för könnumst við öll við.
Engill á annarri öxlinni og skrattinn á hinni? Ástríða versus skynsemi, þessi
eilífu átök mannskepnunnar.
Penþeifur gerir hvað sem er til að halda í völdin. Hann fer gegn ráðum
nákominna og neitar að viðurkenna guðinn Díonýsos, og hugsanlega trúar-
brögð yfir höfuð. Hann er ekki tilbúinn til að horfast í augu við sjálfan sig, við-
urkenna sínar mörgu ólíku hliðar. Til dæmis þá kvenlegu. Hann er þröngsýnn,
hefur búið sér til ákveðna mynd af sjálfum sér og vill fyrir enga muni hnika
þeirri mynd. Hann rígheldur í hana. Og það verður honum að falli, það eru hans
stóru mistök (hybris) sem tragedían snýst um. Hér erum við komin að klassísku
dæmi um það hvernig ofdramb og oflæti verður söguhetju að falli, enda er
„tragísk athöfn […] afleiðing þess að maðurinn er ævinlega að verða tegund,
ævinlega að öðlast fyllra form, ævinlega að verða meiri einstaklingur.“4
Túlkun og leikstjórnaraðferð
Skömmu eftir að æfingar á Bakkynjum hófust og ég hafði orðið vitni að því
hvernig leikstjórinn beitti heilunaraðferðum á leikarana og hlóð orkusvið
þeirra svo að við húð þeirra loddu skeiðar eins og járn við segul, rann upp fyrir
mér að nálgun leikstjórans var sprottin úr dýrkuninni á Díonýsosi, því hvern-
ig trúin á guðinn var eða er iðkuð.
Það sem Giorgos reyndi að ná fram á æfingaferlinu var að leikarar og dans-
arar „líkömnuðu“ (e. embody) verkið. Það er að segja, að þeir upplifðu tilgang
þess og skilaboð fyrst og fremst líkamlega og tilfinningalega, ekki með því að
beita rökhugsuninni. Líkamning felur í sér að líkami einstaklings breytist úr
viðfangi í geranda; líkamleg hegðun okkar (þ.á m. tilfinningar og eðlishvöt) er
því líkamning á því sem við erum að upplifa og miðla sem einstaklingar í
samfélagi.