Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 30
H r u n d G u n n s t e i n s d ó t t i r
30 TMM 2007 · 1
stórum dýrum, til dæmis gíraffa. Eða gíra-faffa eins og litli frændi kall-
ar þá. Ég keypti ekki fígúrur úr kóktöppum og vír þótt mér hefði fund-
ist þær sniðugar. Sannkölluð nytjalist.
Ég borgaði með 20.000 simbabverskum dollaraseðlum og viðskiptin
kostuðu tvær komma fjórar milljónir simbabverskra dollara. Ég tók
seðlabúntin upp úr bakpokanum og lagði þau á búðarborðið, hvert á
fætur öðru, á meðan ég taldi hversu marga 20.000 dollaraseðla ég þurfti
til að fylla upp í tvær komma fjórar milljónir. Þeir voru hundrað og tutt-
ugu talsins. Verðbólgan var stígandi, talningin krefjandi. Á einum
tímapunkti, þegar ég var að telja seðlana í minjagripaversluninni, hafði
ég á tilfinningunni að verið væri að gabba mig, ég var ekki búin að vera
í Harare nógu lengi til að venjast verðlaginu. Að úr einhverju skúma-
skotinu ætti eftir að skjótast maður, óður til augnanna og hrifsa alla
peningana af mér. Heimska ég, rífandi seðlana upp úr töskunni eins og
ekkert væri sjálfsagðara. Bleik í framan og augljóslega ferðamaður. Túr-
isti með nóg af seðlum. Óði bófinn og gamla konan við afgreiðsluborðið
í samsæri gegn mér. En svona er Simbabve, milljónamæringar á hverju
strái. Með verðlausa peninga úr pappír og aukastarfsfólk til að telja þá.
Það rændi mig enginn. En þegar ég rifjaði þetta upp á flugvellinum
fannst mér óði bófinn líta út eins og eigandi pokans sem ég var að passa.
Ætli hann hafi einhvern tíma rænt unga konu? Eða unnið fyrir sér með
því að búa til fígúrur úr kóktöppum?
Var hann kannski svona glaður af því að hann var að fara bjarga
heiminum? Sínum heimi. Fórna sér fyrir málstaðinn? Á maður ekki að
gæta sín á farangri sem hefur verið skilinn eftir í flughöfnum? Spurn-
ingarnar hrönnuðust upp eins og Íslendingar á fyrsta degi útsölu í BT.
Ætli hann komi ekki örugglega aftur?
Hvaða-hvaða, svaraði ég sjálfri mér og hnykkti til höfðinu í vandlæt-
ingu. Suss, heyra í mér. Ég reyndi að hugsa um eitthvað annað. Amma
kom upp í huga minn og áréttaði með vísifingri að hugurinn er versti
óvinur mannsins.
Talandi um að dreifa huganum: Perludýrin voru tilvalin gjöf fyrir
litlu smörfarana. Elstu strákarnir elska stóru dýrin (verst þeir áttu ekki
risaeðlur á markaðnum) og ég gef þeim litlu bara skordýrin. Maríuhæn-
urnar, rauðar og svartar. Of stórar til að passa í munninn, nógu litlar til
að rúmast í lófanum. Þau eru öll hraustleg, frændsystkin mín, með
spékoppa á handarbakinu.