Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 42
Á r m a n n J a k o b s s o n
42 TMM 2007 · 1
eða dæmigert fyrir nútímann en ekki um kynlega kvisti eða afbrigðilegt
líf.
Goðsögur eru að vísu flóknar en aðallega eru þær sáraeinfaldar. Þær
eru eins og flíkur sem eru teknar að rakna upp, úr verður flóki sem þarf
að greiða úr. Svava sóttist einmitt eftir að greiða úr flækjum uns hún sá
kjarnann. Til þess þurfti samt oft langa ferð, frá hugsunarlausri einfeldni
að hinum einfalda sannleika, eins og sést svo vel á ritgerð hennar um
Ferðalok. Stundum er næstum eins og sú ferð sé út í hött því að hún
hefst á sama stað og henni lýkur: Á einfaldleikanum. En kannski er
grundvallarmunur á þeim einfalda sannleika sem blasir við þegar greitt
hefur verið úr flækjunni og hinum sem aldrei hafði flækst. Skáldleg
einfeldni er ekki einfeldningsleg.
Goðsagnir eru semsagt einfaldar á yfirborðinu, flóknar undir niðri
en einfaldar innst. Leiðin til að skilja þær er að gleyma ekki að þær skýra
heiminn og þess vegna þurfa þær að vera lausar við óþarfa flækjur. En
þær skýra ekki aðeins heiminn utan við heldur líka innan í. Með því að
eiga sér stað í senn inni í tilfinningalífi okkar — því sem við þekkjum
best — og úti í víðáttum geimsins hjálpa þær okkur til að finna samræmi
hins ytra og hins innra. Þannig kemur maðurinn reglu á óregluna
umhverfis sig. Aðferðir hans til þess eru fjölbreyttar en meðal tækja sem
hann á eru samsvaranir, viðsnúningur og líkindi sem geta virst leiða í
ýmsar áttir en þurfa þó ekki að leiða afvega ef við skiljum að kjarninn
er inni í sálarlífi okkar sjálfra.
Goðsögur eru nátengdar erfiðleikum, eins og þeim sem lýst er hjá
frúnni þetta kvöld og eru þó aðeins smásaga inni í stærri sögu um
flóknari vanda sem hún er í. Kannski er það einmitt hinn sýnilegi og
líkamlegi vandi (ókunnu unglingarnir, skíturinn, slitnu dúkarnir, háðs-
legar athugasemdir Önnu, bragðvondu pylsurnar, gubbið) sem hjálpar
frúnni að takast á við hinn ósýnilega og torskilda vanda sem dóttir
hennar er miðdepillinn í, svipað og ævintýri gera gagn með því að per-
sónugera gott og illt sem fallegt og ljótt eða hvítt og svart.
Goðsagan hlýtur að skapast að lokinni erfiðri ferð – Svava var hug-
fangin af slíkum ferðalögum eins og sést á mikilli ritgerð hennar um
Ferðalok Jónasar, „Skáldið og Ástarstjarnan“.9 Úr blóði, svita og söltum
tárum og úr vonbrigðum. Á slíkum stundum þarfnast maðurinn goð-
sagna og þá skapar hann þær öflugustu, hvort sem hann notar til þess
ferðalagamyndir eða sögur. Þetta sýnir Svava í Gunnlaðar sögu og
fjallar þannig ekki aðeins um endurheimt kers úr goðsögu heldur líka
um það hvernig goðsögur verða til, meðal annars úr sársauka, andlegu
álagi, vonleysi og tímabundinni uppgjöf. Og gubbi.