Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 81
B ó k m e n n t i r
TMM 2007 · 1 81
Ef ég horfi bara á Sandsættina fyrir norðan er skondið að ekki skuli minnst
á Sigurjón Friðjónsson (jú reyndar nefndur ásamt ættingjum í rastagreininni
Skáldakyn III:719, eins og Heiðrekur frændi hans, og síðan sem skoðanarmað-
ur bókmennta í sama bindi, 918) né heldur er fjallað um son hans Braga, og
ekki um bróðurson hans Heiðrek Guðmundsson (nema í nefndri rastagrein),
svo bara sé nú nefnd ein fjölskylda sem var býsna mikið með í íslenskum bók-
menntum á 20. öld.
Í þessu sambandi er líka ástæða til að minnast á val verka sem nefnd eru. Það
er næstum fyndið þegar laxamýringurinn Árni Sigurjónsson skrifar ágætan
kafla um sveitunga sinn Guðmund á Sandi að honum tekst að komast hjá að
nefna eina allra bestu smásögu sem skrifuð hefur verið á íslensku og um leið
sálfræðiþriller, nefnilega Gamla heyið eftir Guðmund á Sandi!
Hjákátlegt verður þegar ritstjóra sést yfir samræmingar. Magnús Hauksson
talar eins og maklegt er um þjóðfræðasöfnun Guðfinnu Þorsteinsdóttur í ÍB
IV:324, 338 og 340 og vitnar í frásagnir hennar. Í fimmta bindi segir Silja Aðal-
steinsdóttir um Þorstein Valdimarsson að hann „var sonur Erlu skáldkonu“
(V:131). Það kemur reyndar í ljós að þessar konur voru fæddar sama ár og dóu
sama ár, enda voru þær ein kona. Það kemur ekki fram nema menn elti uppi í
nafnaskrá að Erla hafi heitið Guðfinna Þorsteinsdóttir. Og einhvern veginn
finnst manni hálfleitt að þessi kona, sem ein kvenna hefur að mér sýnist feng-
ið sæmdarheitið skáldkona í bókunum tveim, skuli aðeins nefnd sem móðir
skálds í fagurbókmenntakaflanum.
Þarna á að sjálfsögðu ritstjóri að bregðast við og láta höfunda samræma sig
svolítið. Erla orti falleg ljóð og skrifaði góðar sögur. Auk þess hefur hún verið
hugmyndarík húsmóðir því hún gaf fjölskyldunni nýskotna gæs og lóur á
hvítasunnunni eitt vorið skv. viðtali sem Valgeir Sigurðsson tók við son henn-
ar Þorstein!
Þýðingarleysi
Þessi millifyrirsögn er sett með þakklæti til Þorgeirs Þorgeirsonar, sem einu
sinni skrifaði bráðskemmtilega grein sem hét Þýðingarleysi í TMM (1984, 45/1).
Hann var einn þeirra manna sem víkkuðu sjónsvið íslenskumælenda með frá-
bærum þýðingum. Hins vegar skondið að það sem hann gerði best þar var
kannski það sem minnst þörf átti að vera á, nefnilega að snúa færeyska skáldinu
Heinesen úr dönsku á íslensku, þegar gert var ráð fyrir að allir Íslendingar
kynnu einhverskonar dönsku. En Þorgeir jók þarna einmitt við tungumennt-
ina, gerði íslenska tungu betur til þess fallna en áður að glíma við hvaðeina.
Það er á þessu sviði tungunnar sem þýðingarnar eru mikilvægastar. Hins
vegar er ég ekki viss um að ég nenni að jagast eins og aðrir yfir því að ekki skuli
fjallað sérstaklega um þýðingar í ÍB. Það er nefnilega svo að það hefur verið
undir hælinn lagt hvort skáldverk eru þýdd meðan þau eru ný og virk eða koma
miklu síðar inn í bókmenntasamhengið. Þarna er náttúrlega Shakespeare
skólabókardæmi, nú eða Cervantes. Þess var naumast að vænta að Rómeó og