Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 94
B ó k m e n n t i r
94 TMM 2007 · 1
sannast sagna frekar skemmtileg tilbreyting. Ástarsagan er heldur ekki föst í
klisjunum. Fyrir það fyrsta kemur lesanda á óvart er upp kemst að bæði Lárus
og Matilda eru hætt með kærustum sínum. Einnig vekur ástarsamband Dags
og Lárusar undrun, sem og óvænt framvinda þess, sem tengist bæði fjöl-
skylduþemanu og spennusögunni.
Þessi ólíku lög fléttast saman í eina heild, þótt að vísu hefði vel verið hægt
að gera fleiri en eina skáldsögu úr efniviðnum. Yfir þessum lögum svífur svo
sýn þess sem hvorki er gestur né innfæddur, borin fram á þunglyndislegan,
áfengis- og sígarettureykmettaðan hátt1 (stór hluti sögunnar gerist á nætur-
bröltinu í Reykjavík). Fyrir vikið er skapaður viss framandleiki. Framandleiki
þess sem er hálft í hvoru og áskapað að vera á einhvern hátt utangarðs.
III
Lárus er kvikmyndagerðarmaður sem sérhæfir sig í kvikmyndum um fugla í
borgum, og það kallast á við hlutskipti hans; fuglar í borgum eiga á vissan hátt
heima þar án þess að það sé þeirra náttúrulega umhverfi. Þeir eiga þannig lagað
séð hvergi heima.
Þessi framandleiki helst bókina á enda. Bara það hvernig eitthvað alþekkt og
íslenskt er þýtt á þýsku vekur upp þessa hálft í hvoru tilfinningu – orð eins og
Busbahnhof Hlemmur, die Besten der Stadt- Hotdog (Bæjarins bestu), Staat-
liche Alkoholladen (ÁTVR). Að auki vekur lýsing á hversdagslegum atriðum,
líkt og rúntinum niður Laugaveginn, bjórflöskusöfnurum miðbæjarins og
götum bæjarins þessa tilfinningu. Einnig mætti heimfæra tungumálapæling-
arnar á bókina í heild. Það er óneitanlega dálítið sérstakt að lesa bók um
íslenskan veruleika sem er frumsamin á þýsku. Maður sér eða skynjar hlutina
í öðru ljósi. Alltént helst í hendur sá framandleiki sem litar sýn sögumanns
sem tvímenningarmanneskju og hvernig íslenskur veruleiki er þýddur á þýsku.
Sögumaðurinn er jú íslenskur en segir söguna á þýsku.
Eins og oft er raunin með fyrstu skáldsögur rithöfunda snýst þessi bók tals-
vert um að finna sjálfan sig og velta fyrir sér hvað maður sé yfirhöfuð að vilja
upp á dekk. Fyrir vikið litast stíll sögunnar af melankólíu sem er þó bless-
unarlega blönduð húmor og „tónlist“ sem setur, allavega fyrir þá sem tilheyra
sömu kynslóð og Lárus, tilfinningar hans í skiljanlegt samhengi. Líklegast
verður að álykta að Kristof sé, í gegnum Lárus, að vinna úr sínum tvöfalda bak-
grunni; hvernig það sé að vera að einhverju leyti útlendingur hvert sem maður
fer, að eiga heima á tveim stöðum en hvorugum þó. Þetta er undirstrikað með
tíðri notkun orða eins og irgendwo (einhvers staðar) sem gefur einnig tilfinn-
ingu fyrir einhvers konar annarleika og óhjákvæmilegri melankólíu.
Þótt stór hluti sögunnar eigi sér stað í næturlífi Reykjavíkur er ekki hægt að
segja að hún taki hugmyndina um hið svala Ísland upp á sína arma, og þar sem
hún gerist að mestu í Reykjavík er hún að mestu leyti laus við náttúruumfjöll-
un og fylgifiska þess. Hún er sem sagt trölla-, álfa- og hrossafrí.