Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 93
B ó k m e n n t i r
TMM 2007 · 1 93
II
Höfundurinn er líkast til ekki mörgum Íslendingum kunnur. Í Þýskalandi er
hann þó, að segja má, vonarstjarna. Hefur Zuhause yfirleitt fengið jákvæða
dóma, selst með ágætum og auk þess hlotið margvísleg verðlaun og tilnefningar.
Kristof hefur líka skrifað fyrir leikhús, til að mynda hefur verk hans Männ-
erhort verið sýnt í hinu virta Berlínarleikhúsi Theater am Kurfürstendamm.
Nýlega lauk hann svo við að þýða skáldsögu Einars Kárasonar, Storm, á þýsku.
Þótt Kristof sé hálfur Íslendingur (faðir hans er íslenskur) hefur hann alið
manninn að mestu leyti í Þýskalandi, nánar til tekið í Hamborg þar sem hann
er fæddur og uppalinn. Um þessar mundir býr hann í Berlín. Kristof skrifar
einvörðungu á þýsku en Ísland hefur sterk ítök í honum. Gerist til að mynda
Zuhause að stærstum hluta á Íslandi.
Zuhause segir frá Lárusi Lúðvíkssyni (eða Lárus segir frá sér í fyrstu per-
sónu), tuttugu og níu ára kvikmyndagerðarmanni. Hann hefur búið í Ham-
borg frá níu ára aldri, er hann fluttist þangað með föður sínum og systur
skömmu eftir lát móður sinnar. Hann á sér þó annað heimili á Íslandi og
kemur þangað reglulega, einkum til að hitta vinkonu sína frá því á grunnskóla-
árunum, Matildu.
Sögusviðið er reykvískur desember 2004. Lárus er kominn til Reykjavíkur
til að halda upp á jólin með Matildu og sænskum kærasta hennar, auk þess sem
von er á kærasta hans, Milan, til landsins í sömu erindagjörðum. Eitthvað eru
samskipti þeirra vinanna þó undarleg þar sem báðum hefur láðst að upplýsa
hinn aðilann um að þau séu orðin einhleyp. Á Íslandi kynnist Lárus Degi,
miklum hnattvæðingarandstæðingi og syni ríkasta manns Íslands, Kjartans,
sem er og höfuð ríkustu og valdamestu fjölskyldu landsins. Tekst með þeim
stormasamt ástarsamband.
Fjölskylda Dags byggir alla sína tilveru á því að vera komin af Agli Skalla-
Grímssyni og telur sig búa yfir svipuðum styrk og sá nafntogaði forfaðir. Fjöl-
skylda þessi ber og svip af mörgum íslenskum fjölskyldum (oft prýddum ættar-
nafni) og gæti verið eins konar samnefnari þeirra. Að auki ber hún keim af
ættarveldum sjónvarpsþátta þar sem fjölskyldan er sett í öndvegi. Dallas
kemur auðvitað upp í hugann.
Með vísuninni í Egil Skalla-Grímsson er tengt yfir í íslenska menning-
ararfleifð og hún séð í ljósi hugmynda um fjölskylduna á Íslandi, sem klárlega
hefur meira vægi í samfélagsgerðinni en í Þýskalandi og er mikilvægur þáttur
í lífi hvers Íslendings. Inn í fjölskylduþemað er svo blandað spennandi ráðgátu
þar sem fléttað er saman lífi Lárusar, fjölskyldunnar og arfleifð hennar og
tekið skemmtilega á þeirri staðreynd að allflestir Íslendingar eru á einn eða
annan hátt skyldir.
Fljótlega hefst hröð, þétt og ævintýraleg atburðarás sem felur í sér nokkur
lög: ástar-, fjölskyldu-, spennu-, og sakamálalög (eða sögur). Í spennu- og saka-
málahlutanum snýst þó málið ekki um að finna glæpamanninn eða gerand-
ann. Það er vitað. Málið snýst fremur um að finna hver glæpurinn er. Það er