Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 104
Kv i k m y n d i r
104 TMM 2007 · 1
aðsókn á myndir kvikmyndavorsins bendir allt til að sumar þeirra hafi tekið
Mýrinni fram í aðsókn þótt sýndar væru í færri sölum og Íslendingar fimmt-
ungi færri en í dag. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að ásamt Djöflaeyju og
Englum Friðriks Þórs sker Mýrin sig úr hvað varðar aðsókn síðustu tveggja
áratuga eða svo, og verður því væntanlega reynt að selja sumar íslenskar mynd-
ir með þessum hætti í næstu framtíð (og þá væntanlega á kostnað annarra, en
ameríska módelið hampar dýrari stórmyndum á kostnað smærri og sjálfstæð-
ari verka). Hvað varðar þessar þrjár myndir má jafnframt draga þá ályktun að
Íslendingar séu bókmenntaþjóð fremur en kvikmyndaþjóð þar sem allar þrjár
eru gerðar eftir vinsælum skáldsögum – og aðrar myndir en gamanmyndir
virðast eiga erfitt uppdráttar séu þær ekki gerðar eftir bókmenntaverkum.2
Hin stílfærða og hnyttna frumraun Baltasars 101 Reykjavík er kannski
ennþá hans besta verk, og glíma hans við reyfaraformið í bæði A Little Trip to
Heaven og Mýrinni hefur ekki tekist sem skyldi. Ég er nokkuð hrifinn af þeirri
lausn í síðarnefndu myndinni að klippa án útskýringa á milli tveggja tíma-
ramma þótt það hefði mátt vinna frekar með hana. Heldur flækir hún einnig
framvindu myndarinnar sem er almennt nokkuð óskýr og hefði mátt nostra
frekar við uppbyggingu frásagnarinnar. Það er ekki laust við að maður taki
undir með Birni Þór Vilhjálmssyni sem segist í Lesbók Morgunblaðsins hvorki
hafa skilið upp né niður í atburðarás myndarinnar – og þó hafði ég lesið skáld-
söguna.3 Erfitt er að segja til um hvort áhorfendur hafi almennt átt auðvelt með
að fylgja atburðarásinni eftir, eða hvort hnútarnir hafi einfaldlega ekki skipt þá
máli. Enda liggja kostir myndarinnar kannski fremur í áhugaverðum per-
sónum og myndmálinu sem er oft vel útfært. Þó hefði mátt nostra frekar við þá
þætti líka. Oft er klippt nokkuð hratt á atriði, væntanlega í von um að auka
hraða og spennu frásagnarinnar. Myndin hefði þó að ósekju mátt vera nokkuð
lengri og gefa mörgum atriðum meiri tíma, sérstaklega þótti mér klippt óþarf-
lega snemma á tökur úr lofti sem annars voru mjög heillandi. Persónum mynd-
arinnar hefði sömuleiðis mátt gefa nokkru meira rými, ekki síst dramatísku
sambandi Erlends og Evu Lindar. Kannski mætti segja að Mýrin væri hrað-
soðin fremur en harðsoðin.
Köld slóð Björns Br. Björnssonar gengur miklu lengra en Mýrin og í raun
aðrar íslenskar reyfaramyndir (sem eru ekki ýkja margar) í að líkja eftir Holly-
wood-fyrirmyndinni. Vissulega er ákveðnu raunsæi fyrir að fara í Reykjavíkur-
köflum Kaldrar slóðar, en þegar haldið er út fyrir borgina verður frásögnin
heldur betur reyfarakennd, og í niðurlaginu fylgir hver afhjúpunin á fætur ann-
arri að hætti formúlunnar, en draugur úr fortíðinni markar myndinni ákveðna
sérstöðu. Þrátt fyrir virkjana-sviðsetningu myndarinnar er hún með eindæm-
um ópólitísk og virðist ætla að verða frekari bið á því að íslenskir kvikmynda-
gerðarmenn geri pólitískum deilumálum samtímans skil í verkum sínum.
Annars hófst bíóárið á frumraun Árna Ólafs Ásgeirssonar Blóðböndum sem
fram eftir ári var eina íslenska kvikmyndin sem hafði verið tekin til almennra
sýninga í kvikmyndahúsum. Það er ekki að sjá að um frumraun sé að ræða
enda myndin með eindæmum stílhrein og allur leikur sannfærandi. Þetta er