Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 52
Vé s t e i n n Ó l a s o n
52 TMM 2007 · 1
megir‘, þ.e. jötnar af karlkyni. Ég sé ekki að þetta leysi neinn vanda, og
breytingin er ekki eins lítilfjörleg og í fyrstu virðist. Þegar við höfum
þetta yfir nú á dögum hljóma ‚meyjar‘ og ‚megir‘ sannarlega líkt, aðeins
er munur á einu áhersluléttu sérhljóði í síðara atkvæði, en á 13. öld og
fyrr hefur munurinn verið miklu meiri; tvíhljóðið í ‚meyjar‘ hefur verið
kringt, en ‚e‘ í ‚megir‘ einhljóð, og einnig telja menn að ‚g‘ hafi hljómað
öðru vísi en ‚j‘ á þessum tíma, jafnvel þótt ‚i‘ fylgdi næst á eftir. Hvers
vegna skyldu kvæðamenn hafa ruglast á þessu og skipt um kyn þursa? Í
tilgátutexta Maddömunnar hefur vísan verið færð til og er þá komin í
samhengi þar sem frekar má vænta karlkyns, en þar sem þessi óræða vísa
stendur í Konungsbók er hún máttugur fyrirboði átaka, eitthvað hefur
vafalítið glatast í framhaldinu, en fræðin megna ekki að fylla þá eyðu.
b) hvíta auri (19–23), s. 77–78
Þar sem fyrst segir frá Yggdrasli, K19, Vt (tilgátutexti Helga) 23, segir að
hann sé ‚ausinn hvíta auri‘, og er algengast að skýra það svo að þetta sé
gruggugt vatn eins og í hvítám, sem haldi við frjómagni viðarins. Í
Maddömunni er stungið upp á því að aur sé komið af latínu ‚aurum‘ =
gull (eins og í aur og eyrir) og þetta merki „döggin á laufinu glóir sem
gull í sólskininu“. Þetta er falleg mynd og vissulega miklu fallegri en
myndin af hinu frjósama skolpi. Líklega eru þó ekki önnur dæmi um að
‚aur‘ sé notað á þennan hátt, þ.e. um ‚gull‘ eða gullslit, og ekki held ég
að mönnum hafi áður dottið þessi skýring í hug. Hins vegar mun sú
kenning til að hinn hvíti aur sé dögg eða jafnvel hagl, og þá er ekki langt
í myndlíkingu Maddömunnar. Nokkru skiptir að hafa í huga að heilögu
vatni var með heiðnum þjóðum einatt ausið yfir fórnartré.
c–d) Gullveigu (21–17), s. 71–72; og hana brenndu (21–18), s. 71
Eitt þeirra fyrirbæra Völuspár sem valdið hefur miklum heilabrotum og
kallað fram ýmsar skýringar er Gullveig sú sem studd er geirum, þ.e.
spjót standa á henni. Hver er hún: jötnakvendi? Freyja? máttur gullsins?
Í Maddömunni er þess til getið að þetta sé alls ekki sérnafn, en gullveig-
ar séu gullskálar; til þess að það geti gengið upp er í tilgátutextanum
höfð eyða á eftir studdu; er þó í K beint framhald, og þar er haldið áfram
að tala um kvenveru sem verður fyrir árásum. Ég tel mjög ólíklegt að
þessi breyting sé í átt til upprunalegri texta. Þess vegna er ég ekki heldur
trúaður á að sú sem brennd var sé höll Óðins, og leiðir það af því sem
segir næst um þá sem brennd var: „þrysvar brenndu / þrysvar borna /
opt ósjaldan / þó hon enn lifir.“ Þetta er svo sem ekki mjög trúleg saga,
að einhver kona eða kvenvættur hafi verið brennd þrisvar, en alltaf lifn-