Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 84
B ó k m e n n t i r
84 TMM 2007 · 1
Í frostinu eftir Jón Atla Jónasson er raunsæisleg skáldsaga, eða segjum sem
svo. En hvað er það? má spyrja. Skáldverk sem lýsir hversdagslegum hlutum?
Óvíst er að gott sé að leggja trúnað á þá lygi sem fræðin bera stundum við, að
segja raunsæi vera stefnu í bókmenntum á nítjándu öld, hún hafi borist til
Íslands fyrir tilstilli hins danska fagurfræðings Georgs Brandesar, verið höf-
undum á borð við Gest Pálsson og Þorgils gjallanda innblástur, runnið sitt skeið
og átt síðan skamma endurkomu með nýraunsæinu á sjöunda og áttunda áratug
síðustu aldar. Í það minnsta má hafa varann á, það er ekki víst að þetta sé satt,
öllu nær gæti verið að segja að raunsæi sé aðferð við túlkun veruleikans sem hafi
alla tíð átt í samspili við aðrar og hafi aldrei liðið undir lok, það er kannski nær
að segja að enginn íslenskur rithöfundur hafi skrifað neitt án þess að nota tól og
tæki raunsæisins í meira eða minna mæli allt til þessa dags, og að íslenska
raunsæið tengist miklu eldri hefð en þeirri skandinavísku. En styðji maður sig
við þessa hækju á annað borð mætti jafnvel glæpast á að segja Ísland vera svæði
raunsæisins í bókmenntalegu tilliti. Nefna má samtímahöfunda eins og Auði
Jónsdóttur, Stefán Mána, Sigurjón Magnússon, Hallgrím Helgason, glæpa-
sagnahöfundana með tölu og Jón Atla Jónasson, höfunda sem allir skrifa með
einhverjum hætti raunsæisverk og gildir einu þótt lýst sé furðum eða fyrirbær-
um sem eru ekki trúverðug því það er ekki það sem raunsæi snýst um.
Heldur að segja sannleikann. Drífa er hjúkrunarkona og vinnur á elliheim-
ilinu Kvöldroða. Hún er einstæð móðir og býr í blokk ásamt syni sínum „sem
er fimm ára og heitir Jóhannes. Jóhannes út í loftið. Það er kannski dálítið
gamaldags. Í dag heita allir svo spes nöfnum. Rökkvi, Alexander eða Snær eitt-
hvað. Hann heitir Jóhannes út í loftið. Það heitir enginn annar því nafni. Eng-
inn sem skiptir máli.“ (bls. 7) Drífa segir frá í fyrstu persónu nútíð, uppfullri
með athugasemdum eins og þessari hér að framan sem segja engin stórtíðindi
en allt þó, hún veltir fyrir sér smælki og bræðir hlutina með sér og stendur á
sama, þannig séð. Framvinda sögunnar er rökrétt og tímaramminn með
raunsæislegum brag: Sagan gerist á rúmum sólarhring í lífi Drífu og frásögnin
er algerlega línuleg ef undan eru skilin stöku endurlit (til bernsku, sambands
við barnsföður, sambands við móður, brot úr lífi móður) og stöku blakkát sem
reka undarlega flottan fleyg í frásögnina. Það sem gerist:
Ég veit það ekki. En ætli það sé ekki baðherbergið fyrst. Það er nefnilega beint til
hægri þegar maður kemur inn í íbúðina. Eftir að hafa gengið upp stigana í blokk-
inni. (Bls. 5)
Það sem gerist: Bókin hefst á baðherberginu, það er nefnilega beint til hægri
þegar maður kemur inn í íbúðina. Síðan fer Drífa til vinnu en henni er boðið í
partý um kvöldið og eftir það gæti allt eins dregið til tíðinda, þau gætu verið
voveifleg eða ekki. Það er sem sé ekki það sem gerist sem er atriðið (hver segir
að eitthvað merkilegt þurfi að gerast í bókum?), þó gerist ýmislegt og enn fleira
liggur í loftinu. Stíllinn er hríðskotabyssa, örstuttar setningar og punktar: það
er varla komma í allri bókinni, og útkoman er aleinn í bíó, eins og skáldið