Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 85
B ó k m e n n t i r
TMM 2007 · 1 85
sagði, því auðu bilin á milli mynda eru lengri en myndin, eins og allir vita, jafnt
þótt augað blekki: megnið af tímanum horfum við á autt tjaldið: þagnirnar á
milli setninga í bók Jóns Atla skapa sambærilega kennd, það andar, það hikar
og þagnar og tekur til máls á ný.
Í frostinu er full af enskuslettum, þessum sem eru notaðar í raunveruleik-
anum en heyrðust aldrei í íslensku sjónvarpi fyrr en með tilkomu SkjásEins og
rata ekki meira en svo inn í bókmenntirnar. Ekkert spontant slangr samt, text-
inn er geysilega slípaður og unninn, ekkert sjálfsprottið og náttúrulegt dót
fyrir þá sem trúa á slíkt – og það er ekki verið að reyna að hneyksla heldur að
ná í gegnum grisjuna, enda hneykslast ekki nokkur maður lengur, í mesta lagi
fyllist fólk óljósri vitund, líkt og í svefnrofum, um að verið sé að hneyksla. Þetta
er ekki útmálun ömurleikans, lýsingar verksins eru hvergi nærri því að vera
handan við það trúverðuga í íslensku samfélagi velmegunar og ístru, hjúkkur
hafa það skítt fjárhagslega, bilið milli fátækra og ríkra er heilt ginnungagap og
fer stækkandi; en það er samt nístingskuldi í þessari bók – eins og heiti hennar
gefur til kynna.
Slétt sagt er formhugsun skáldsögu Jóns Atla fjandi góð og skýr stílvilji á
ferð, ef má orða það sem svo. Óvíst er að allir felli sig við sýn verksins á konur
en körlum er ekki síður lýst napurlega; partýið sem Drífa er boðin í um kvöld-
ið er haldið fyrir vinkvennahóp úr hjúkrunarfræðinni, Sara býður í partý sem
í og með er sýning á hamingju og efnisgæðum; það kemur einkennileg sena
með eiginmanni hennar í bílskúrnum, nýkomnum af rjúpnaveiðum, blóð-
ugum og kynferðislegum, ein sterkasta sena bókarinnar; tveir náungar í blokk-
inni sem hafa drepið rottu í ruslageymslunni í upphafi bókar kallast á við þessa
mynd og báðar láta glitta í blóð líkt og fyrirboða um enn aðra senu við lok bók-
arinnar sem er hápunktur hennar: uggur og voði að lokinni veislu. En Drífa er
ekki ósympatísk persóna og allra síst dygði að sakast við höfundinn eins og við
gerum stundum til að forða okkur undan voðaskotum bókmenntanna. Það
sem meira er: bókin er vel skrifuð og býr til sterkt andrúmsloft og skapar eftir-
minnilegar persónur (ef til vill mætti líkja henni við Theresu eftir Mauriac,
eina af eftirminnilegri persónum bókmenntasögunnar í eftirminnilegustu
þýðingu síðasta árs). Þessi persóna er það sem heldur verkinu uppi, fánýtar
hugleiðingar hennar og þagnirnar á milli setninga, þetta er persónusköpun í
fáum dráttum og einkennilega fjarlæg, líkt og mannvera séð að utan, enda þótt
hún tali sjálf í sögunni.
Raunsæismenn hafa tilhneigingu til að snúa sér að leikritun, það nægir að
nefna Ólaf Hauk Símonarson, og Jón Atli hefur einnig gert það. Og höfundur
hefur lært á leikritaskrifunum, Í frostinu er betri bók en frumburðurinn Brot-
inn taktur, smásagnasafn sem kom út fyrir nokkrum árum, sem þó var vel
burðug bók. Nú fyrir jólin kom svo út ný bók eftir hann, Ballaðan um Bubba,
samtalsbók um Bubba Mortens, sem ég geri ráð fyrir að einhver annar fjalli um
með tíð og tíma, til þess eru tímarit, að gera líftíma bóka öllu lengri en þrjá
mánuði eða ár. Það var talsvert meira húllumhæ í kringum Ballöðuna um
Bubba, Í frostinu var frumútgefin í kilju og allt í kringum útgáfuna miðaðist