Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 127
L e i k l i s t
TMM 2007 · 1 127
Grimmd í nafni trúarinnar
Í gegnum tíðina hefur mikið verið spáð í hvaða skilaboðum Evrípídes vildi
koma á framfæri um trúmál. Hvaða skoðun hafði hann í þeim? Var hann efa-
semdamaður? Vildi hann gefa í skyn að guðinn Díonýsos væri bara jarðneskur
loddari? Eða trúði hann á guð og hið guðlega?
Hvert sem rétt svar við þessum spurningum kann að vera, liggur ljóst fyrir
að leikritið fjallar um trúna á tilvist guðs; guðlegrar veru sem er æðri jarðn-
eskum mönnum. Þeim, sem ekki viðurkenna nýjan guð eða trúarbrögð yfir
höfuð í Bakkynjum, er refsað. Þetta á við um dætur Kaðmosar og Penþeif kon-
ung. Fylgjendur Díonýsosar og þeir sem síðar ákveða að gangast við trúboði
hans, gera það annað hvort af því að þeir trúa á hann eða eru of hræddir við
afleiðingar þess að gera það ekki. Á endanum er það hið guðlega sem sigrar.
Hvernig hljómar það á okkar tímum að trúin sé ofar öllu? Að trúin sigri að
lokum? Að karlgerður eða kvengerður guð sé æðsta afl í heimi hér? Að upp að
vissu marki séum við mannfólkið algerlega valdalaus yfir eigin lífi og að guð-
irnir viti best? Að við eigum að treysta og trúa á guð jafnvel þótt hann sé
ofbeldisfullur og lævís, líkt og í tilfelli Díonýsosar? Erum við yfir höfuð sam-
mála um að til sé guð? Eða er verið að vísa í guð í hvaða mynd sem er, sem
alheimsorku, í jarðneskri mynd, sem geimveru eða einhvers konar hand-
anheims veru?
Trúleysingi sem flakkar um í tímaleysi getur allteins sagt að leikritið fjalli
um það hvernig leiðtogi með óvenju mikla persónutöfra kemst til valda með
tilvísun í trúarbrögð eða guðlega náðargáfu. Evrípídes gæti verið að fjalla um
grimmdina bak við trúarvald; hversu grimm manneskjan getur verið í nafni
trúarinnar. Nokkuð sem ætti að hafa sterka tilvísun í samtímann og skipan
heimsmála. Það er ekki trúin sem boðar stríð og hörmungar, heldur mann-
skepnan. Og til að réttlæta gjörðir sínar, baráttu um völd og yfirráð, vísar hún
í trúarbrögð.
Tilvísanir
1 Hér vísa ég í gagnrýni Maríu Kristjánsdóttur í Morgunblaðinu 28. desember og
Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttablaðinu sama dag.
2 Kristján Árnason, leikskrá Bakkynja, bls 19.
3 Bakkynjurnar: Sorgarleikur/eftir Euripides, þýð. Sigfús Blöndal. 1923, Kaup-
mannahöfn.
4 Sigurður A. Magnússon: „Um harmleikinn“ bls. 215, í Grikkland ár og síð (1991),
ritstj. Kristján Árnason, Sigurður A. Magnússon og Þorsteinn Þorsteinsson.
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.
5 Ibid. bls.212–213.
6 Giorgos Zamboulakis, leikskrá Bakkynja, bls. 9.