Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 92
B ó k m e n n t i r
92 TMM 2007 · 1
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson
Í öðru ljósi
Kristof Magnusson: Zuhause. Kunstmann 2005.
I
Ísland sem framandi land: land álfa, trölla og jólasveinanna, land furðulegs
sídrukkins partý-elskandi, syngjandi og stöðugt skapandi fólks sem þarf ekk-
ert að sofa, land sterkasta og fallegasta fólksins, land bestu listamannanna og
bestu íþróttamannanna (miðað við höfðatölu), land Bjarkar og Sigur Rósar,
land Gullfoss og Geysis; land besta hestsins, land Jóns Páls, land Eiðs Smára og
Ásgeirs Sigurvinssonar, land besta lambakjötsins og fisksins, land ótrúlegustu
náttúru í heimi, þar sem fólkið, allavega kvenfólkið, hefur ekki síðri náttúru!
Þetta er sú ímynd sem haldið er á lofti um okkar íslenska land og fólkið sem
það byggir. Ímynd sem hefur margt til síns ágætis en segir ekki alla söguna.
Ísland er og land með endemum vestrænt, sem kemur ekki spánskt fyrir sjónir
nema ef vera skyldi fyrir hversu vestrænt það er. Þar býr einnig fólk sem ekki
fæst við listræna sköpun, er ekki sífellt í partýjum, trúir ekki á álfa og tröll og
er ekkert sérstaklega með hugann við náttúruna, miklu fremur við rúntinn og
bílinn sinn. Þarna er meira að segja fólk sem finnst tónlist Bjarkar og Sigur
Rósar leiðinleg, eða kannski bara guðdómleg lyftutónlist, líkt og Íslandsvin-
urinn Nick Cave sagði eitt sinn um tónlist Sigur Rósar. Hvað eigum við að kalla
slíkt fólk? Venjulegt?
Við Íslendingar erum uppteknir af ímyndinni, hvort sem það er til að varpa
rýrð á hana eða til að festa hana í sessi. Ímyndarbröltið hefur oft útlöndin í
huga; markaðslega er ekki slæmt að fólk erlendis hafi þessa sýn á land og þjóð
auk þess sem fínt er að slá um sig á börunum á Spáni með krafta- og furðusög-
um og ekki verra ef „Jóns Páls-leg“ hegðun fylgir. Skringilegheitin, fegurðin og
krafturinn í bland við víkingalega útrásardrauma selja.
Vafasamt við þessa ímyndarsköpun okkar er þegar ekkert stendur eftir
nema innistæðulaus ímyndin. Þegar við rembumst líkt og rjúpan. Slíkt ímynd-
arbrölt kann fremur að framkalla aulahroll meðal viðstaddra en hrifningu.
Ímyndarbröltið má finna á flestum sviðum samfélagsins, listum sem og við-
skiptum, og á það sammerkt að innihalda, á tíðum, tómahljóðið eitt … En
ætlunin er alls ekki að fara út í þessa sálma. Það er efni í aðra grein sem einhver
annar er að skrifa núna. Þessari grein er ætlað að taka til umfjöllunar skáld-
söguna Zuhause (Heima), sem kom út í ágúst 2005, eftir hinn íslensk-þýska
Kristof Magnusson (f. 1976).