Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 106
Kv i k m y n d i r
106 TMM 2007 · 1
þeirra mynda sem ekki voru sýndar á árinu! Annað árið í röð var ekki frum-
sýnd ein einasta mynd eftir kvenleikstjóra. Ekki er ólíklegt að þá einlitu sýn
sem einkenndi myndir ársins í bæði stíl og efnistökum, þar sem synir og feður
eru í brennidepli fjölskylduupplausnar, megi að einhverju leyti rekja til þessa
misréttis. Sannarlega var stuttmynd Ísoldar Uggadóttur Góðir gestir litríkari
og nálgaðist íslensku fjölskylduna á gamansamari hátt – auk þess sem aðal-
persónan var kona (sem hefur einmitt ekki gerst síðan kona leikstýrði síðast
mynd). Heldur var það pínlegt þegar Björn Br. Björnsson, formaður félags
kvikmyndagerðarmanna, reyndi að útskýra skammarlegan hlut kvenna á
Eddu-hátíðinni með því að hætt hefði verið að veita verðlaun fyrir leik eftir
kyni þar sem að „sum árin væru kvenhlutverk einfaldlega ekki jafn áberandi
eða bitastæð“ og karlhlutverkin.5 Er það þá ekki heldur stærra vandamál, og
má ekki ljóslega rekja það til einokunar karla á leikstjórastólnum? Ef aukinn
stuðningur ríkisins á að skila sér í blómlegri kvikmyndagerð hérlendis verða
bæði kynin að njóta góðs af. Það er með ólíkindum, en að Guðnýju Halldórs-
dóttur undanskilinni hefur engin kona leikstýrt fleiri en tveimur leiknum
kvikmyndum hér á landi.
Það er ekki síst vegna þessa sem ég hef nokkrar áhyggjur af þeirri stefnu sem
virðist hafa verið mörkuð með nýjum fjárveitingum ríkisins að „gerðar skuli
eigi færri en fjórar myndir í fullri lengd,“ svo vitnað sé í orð menntamálaráð-
herra.6 Auðvitað hljóta allir áhugamenn um íslenska kvikmyndagerð að fagna
þessum samningi, sem mun á fjórum árum auka framlög ríkisins úr 372 millj-
ónum í 700 milljónir, og ekki verður annað sagt en að ríkið sýni sérstöðu
íslenskrar kvikmyndagerðar ágætan skilning – og virðist eitthvað vera að
ranka við sér hvað varðar framleiðslu á sjónvarpsefni. Hugmyndir um að
framlög úr sjóðnum verði a.m.k. 50% af kostnaðaráætlun mynda eru ekki
síður lofsverðar, en undanfarin ár hafa íslenskir kvikmyndagerðarmenn þurft
að reiða sig um of á erlent fjármagn. Það sem veldur mér aftur á móti áhyggjum
er að það skuli miðað við aðeins fjórar myndir á ári.7 Ég er á því að betur færi
að tvöfalda þann fjölda, jafnvel þótt gerðar yrðu ódýrari kvikmyndir. 8 börn í
stað 4 mýra. Fjórar myndir eru einfaldlega ekki nóg þegar hafður er í huga
fjöldi frambærilegra kvikmyndagerðarmanna hér á landi. Það liðu rúmlega
fimm ár á milli frumraunar Ragnars Fíaskó og hans næstu myndar – og hafði
hann þá vit á því að gera tvær í einu! Fleiri myndir ættu einnig að geta stuðlað
að frekari tækifærum fyrir kvenleikstjóra, sem hafa orðið undir í baráttunni
um þá fáu bita sem hafa verið í boði, og að gefa fleiri efnilegum kvikmynda-
gerðarmönnum tækifæri til að spreyta sig. Enn fremur tæki það styttri tíma að
fylgja eftir vinsælum kvikmyndum – hvenær verður næsta mynd um Erlend
frumsýnd? Það er svo auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að leikstjórar sem hafa
skapað sér nafn erlendis, líkt og Baltasar og Dagur Kári, leikstýri dýrari mynd-
um heima eða heiman þar sem íslenskar styrkveitingar eru aðeins lítill hluti af
heildarframleiðslukostnaði. Þótt erfitt sé að segja til um það kynni fjölgun
mynda að auka aðsókn á íslenskar myndir almennt. Sérstaða íslenskra mynda
kann að vera farin að há þeim á meðan hún var áður fyrr þeirra helsta aðdráttar-