Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 50
Vé s t e i n n Ó l a s o n
50 TMM 2007 · 1
ekki sem brot og yfirleitt ekki gert á því vísvitandi breytingar nema í
smámunum sem mönnum fannst nauðsynlegt að laga svo að kvæðið
væri skiljanlegra og betra en þeim fannst það vera hjá afa og ömmu; en
sjálfsagt hafa menn einatt óafvitandi bætt einhverju við úr öðrum
kvæðum eða ruglast í röð vísuorða eða erinda. Samt hafa kvæðakarlar
og konur jafnan reynt að flytja kvæði sem héngi vel saman og hefði eitt-
hvað að segja áheyrendum sem þeim sjálfum þótti mikilvægt. Ekki er
loku fyrir skotið að breytingar hafi stundum verið til bóta, gert kvæðið
áhrifameira.
Líta verður á Völuspá Konungsbókar og Völuspá Hauksbókar sem tvö
kvæði eða kvæðisafbrigði, tvö sjálfstæð listaverk, systkin að vísu, en
vafalaust með mörgum breytingum frá hinu upphaflega kvæði; sumar
breytingar birtast í báðum kvæðum, aðrar aðeins í öðru. Ég viðurkenni
fullkomlega rétt allra manna, skálda, háskólamenntaðra fræðimanna og
annarra, til að reyna að gera sér í hugarlund hvernig hið upphaflega
kvæði hafi verið og birta okkur niðurstöðuna. En ég held það fari eins
og á nítjándu öld, að kvæðin verði jafnmörg og túlkendurnir, sem
kannski gerir ekkert til. En mér finnst líka að við skuldum þeim sem
björguðu kvæðinu frá glötun með því að kveða mann fram af manni og
festa loks á skinn, líklega á þrettándu öld, að reyna af alefli að skilja
hvaða merkingu kvæðið hafði fyrir þeim, ljósa og óljósa. Það held ég við
verðum að láta ganga fyrir, amk. fræðimennirnir. Samt skal ég fúslega
viðurkenna að fræðin skila okkur aldrei á leiðarenda. Að lokum verðum
við að velja milli túlkana, eigin hugmynda eða annarra eða blöndu hvors
tveggja, og hafa af þeim skilningi stuðning við val milli túlkunarkosta.
Þeir tveir fræðimenn sem á síðustu öld lögðu, að mér finnst, mest
fram til skilnings á Völuspá, Sigurður Nordal og Ursula Dronke, skilja
kvæðið persónulegum skilningi sem ræður úrslitum um túlkun ýmissa
atriða sem ekki verður skorið úr með hlutlægum hætti. Engu að síður
hafa aðrir haldið áfram að glíma við kvæðið og lagt nýtt til mála. Þessir
tveir fræðimenn hugsa sér að mikið skáld, kunnugt bæði heiðni og
kristni, en þó líklega hallara undir heiðna lífsskoðun, hafi nálægt alda-
mótum 1000 sett saman kvæði harla líkt því sem varðveitt er á Kon-
ungsbók. Þau reyna að hreinsa kvæði Konungsbókar af síðari tíma
grómi og hagnýta sér einatt texta Hauksbókar og stundum Snorra til að
bæta í götin. Með því að reyna að endurreisa þetta upphaflega kvæði
ganga þau lengra en ég treysti mér til að gera. Þó trúi ég því að í báðum
gerðunum, K og H, sé kjarni allmiklu eldri en handritin. Mér þykir
sumt líklegra til að vera yngri viðbætur en annað, en ég veit ekki nema
þær hafi komið í staðinn fyrir eitthvað sem nú er glatað þannig að