Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 66
M e n n i n g a r v e t t va n g u r i n n
66 TMM 2007 · 1
gæfuspor að takmarka Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar við ljóð,
þar með fá þau sérstöðu meðal verðlauna fyrir handrit sem vekur meiri athygli
á þeim.
Fleiri ungliðar vöktu athygli fyrir ljóð, meðal annars Óttar M. Norðfjörð
sem gaf út bókina AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ
(Nýhil). Þar fær hver bókstafur sitt ljóð þar sem öll orðin hefjast á honum.
Ljóðið „G“ hefst til dæmis á þessum línum: „Gabríel gaf gagnrýnandanum
galdrabók. Gamalmennið gasalega geðbilað, gengur geometrískt, germanska
gerpið. Geysiauðugur, gildvaxinn, girnist gjálífið. Gjörsamlega gjörsneyddur
gjörvallri glaðværð …“ Má lengi velta fyrir sér hverri einustu setningu. Nýhil-
ungar gáfu út síðari hluta seríunnar Norrænar bókmenntir sl. vor, þar eru
bitastæð verk eftir Kristínu Eiríksdóttur, Ófeig Sigurðsson, Steinar Braga, Val
Brynjar Antonsson og Þórdísi Björnsdóttur. Ungur maður með hljómmikið
nafn, Arngrímur Vídalín Stefánsson, gaf út bókina Endurómun upphafsins
(Nykur) um listina, ástina, náttúruna og hverfulleikann. Og Hermann Stef-
ánsson kom út úr skápnum sem ljóðskáld með Borg í þoku (Hávallaútgáfan)
eftir tvær skáldsögur og fræðirit.
Bragi Björnsson er ekki ungliði en gaf þó út sína fyrstu eiginlegu ljóðabók á
árinu, safnið Laðar nótt til ljóða (Félag ljóðaunnenda á Austurlandi). Bragi er
þekktur hagyrðingur austanlands og áður hafði komið út safn lausavísna hans,
Agnir (1985). Nýja safnið geymir ljóð sem ekki höfðu farið hátt, vel ort ljóð um
lífið í sveitinni og landinu, hlý og sönn.
Ekki má skiljast við ljóðabækur ársins 2006 án þess að minnast á tvær sígild-
ar. Önnur er Ljóðmæli Jóns Arasonar biskups sem Ásgeir Jónsson ritstýrði
(JPV) og samdi inngang að en Kári Bjarnason bjó til prentunar og skrifaði
skýringar. Þarf ekki að fjölyrða um þýðingu þess að fá allan skáldskap höfð-
ingjans í einni myndarlegri bók. Hin er Einu sinni átti ég gott, ný „vísnabók“
handa börnum (og öðru fólki) með gömlum kveðskap, vísum, þulum og sögum
(Smekkleysa og Stofnun Árna Magnússonar). Þetta er fallega hönnuð bók,
myndskreytt af Halldóri Baldurssyni, og henni fylgja tveir geisladiskar með
upptökum úr safni Árnastofnunar þar sem efni bókarinnar er flutt, lesið eða
sungið. Titill bókarinnar er fenginn úr þessari vísu:
Einu sinni átti ég gott
á allri ævi minni
þá var soðinn rjúpurass
og ærin upp úr skinni
hjá henni matmóður minni.
Í útvarpsþætti Eiríks Guðmundssonar um Gunnar Gunnarsson um jólaleytið
ræddi Matthías Johannessen skáld um stöðu Gunnars í samtímanum og benti
á atriði sem vakti nokkrar umræður í mínum heita potti. Hann sagði að
kannski væri Gunnar ekki á hvers manns vörum lengur, en hann vissi þó ekki
til þess að verið væri að skrifa bækur á borð við Svartfugl og Aðventu á Íslandi
nú til dags. Þetta er spennandi sjónarhorn. Hvaða bók gæti unnið samkeppn-