Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 110
110 TMM 2007 · 1
stjórnar því ekki alfarið hvaða viðtökur verk hans fá, en hann lagði mikla
áherslu á að myndlistarmenn væru meira en bara „heimskir málarar“. Hann
benti réttilega á að myndlistarmenn hefðu barist fyrir því frá því á dögum
Leonardos da Vinci að losna við handverksmannastimpilinn og verða við-
urkenndir sem frjálsir, hugsandi listamenn og lagði áherslu á að myndlist væri
annað og meira en sjónræn upplifun. Duchamp átti með öðrum orðum stóran
þátt í því að farið var að líta á myndlist sem annað og meira en fallegan hlut
sem þægilegt væri að horfa á. Hann lagði sitt af mörkum til að draga fram þá
þætti myndlistarverka sem höfða til vistmuna áhorfenda – sem aftur gerir þá
kröfu til listamanna að þeir noti sína vitsmuni – sem aftur er ástæðan fyrir því
að myndlistarmenntun á okkar dögum er komin á háskólastig.
Sé aftur vikið að áhorfandanum þá velti Duchamp því hins vegar fyrir sér
hvað yrði um verk sem aldrei kæmu fyrir sjónir áhorfenda og komst að þeirri
niðurstöðu að þau væru ekki til. Reyndar orðaði hann þetta ekki nákvæmlega
svona heldur sagði hann í viðtali við Pierre Cabanne sem gefið var út á bók: Ef
snillingur býr í miðri Afríku og gerir þar á hverjum degi snilldarverk, án þess
að nokkur sjái þau er hann ekki til.
Það má auðvitað velta þessu fyrir sér, ekki aðeins í sambandi við listaverk
heldur ýmislegt fleira í heiminum sem við vitum ekki af og sjáum aldrei. Þá er
hægt að mótmæla og segja að listamaðurinn sé allavega alltaf til í eigin lífi þótt
við hin vitum ekkert hvað hann er að bauka. En við viðurkennum að verk hans
hafa engin áhrif á okkur persónulega. Gerum ráð fyrir að það sé kjarninn í
orðum Duchamps. Þá getum við tekið undir með honum og sagt að flestir
listamenn þrái að eftir verkum þeirra sé tekið þar sem áhrifamáttur þeirra
byggir á móttökum áhorfenda. Listaverk sem enginn sér eða þekkir hefur ekki
meiri áhrif á heiminn en orð sem töluð eru í einrúmi.
Þegar íslenskir myndlistarmenn samtímans halda því fram að áhorfandinn
eigi að túlka verkið og gefa því merkingu er ekki beinlínis hægt að segja að þeir
rangtúlki orð Duchamps. En þeir virðast gefa þeim meira vægi en Duchamp
sjálfur. Þegar hann tjáði hugmyndir sínar um hlutverk áhorfandans var það til
að leggja áherslu á að listaverk er hvorki eintal né einræða, heldur samtal.
Listamaðurinn hefur eitthvað að segja, hann vill tjá hugmynd, tilfinningu eða
eitthvað annað en hvort honum tekst það er annar handleggur. Þar kemur
áhorfandinn til sögunnar, því það er hann sem ákveður það. En listamaður
sem ekki hefur neitt „að segja“ við áhorfendur getur ekki vænst þess að neinn
nenni að leggja sig eftir því að „hlusta“ og því síður getur hann búist við að fá
svar.
Þversagnir
Marcel Duchamp var stundum í mótsögn við sjálfan sig. Hann var upptekinn
af áhorfandanum og mikilvægi hans fyrir listaverkið, en á sama tíma hafnaði
hann myndlist sem hann taldi „áhorfendavæna“, list sem væri aðeins fyrir
augað. Sjálfur gerði hann verk sem áttu hvorki að vera smekkleg né smekklaus
M y n d l i s t