Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 75
B ó k m e n n t i r
TMM 2007 · 1 75
engin tilviljun að Halldór Kiljan, Gunnar Gunnarsson, Páll Ísólfsson og Jón
Leifs eru einnar kynslóðar. Hvorki Shostakovítsj né Stravinsky eru nefndir í
bókmenntasögunni og væru þó verðugir fulltrúar þess sem gerðist bylting-
arkennt í evrópskri menningarsögu, svo ekki sé nú talað um Schönberg og
Orff.
Vitaskuld er ég með þessu að biðja um almennari menningarsögu en hér
stóð til að rita, en ég er líka að lýsa eftir nánari tengslum við aðrar listgreinar.
Það er góðra gjalda vert að benda á að HKL sótti ákveðnar (hug)myndir í Sjálf-
stæðu fólki til Einars Jónssonar og Útilegumannsins, en slíkra dæma hefði mátt
neyta víðar.
ÍB kaus að verða ,íslensk bókmenntagreinasaga’ og þannig verður að skoða
hana.
Ljóðatal
Elstu textar sem við teljum okkur eiga eru ljóðakyns og þess vegna eðlilegt að
grípa þar niður fyrst. Að vísu er það svolítið erfitt af því höfundurinn að þess-
ari ljóðsögu síðustu alda er ritstjóri tímaritsins sem ég skrifa í (dæmigert fyrir
íslenska nábúamenningu) og þess vegna munu lesendur áreiðanlega hugsa að
ég sé bara að skapa mér gúddvill þegar ég segi og skrifa: Silja hefur unnið það
ágætisverk að skrifa alla sögu íslenska ljóðsins frá nítjándu öld og út hina
tuttugustu þannig að við höfum einlita og einsleita sýn sem við getum þar með
tekið afstöðu til og verið með eða á móti. Hún skrifar auk þess, einkum þegar
á líður, einkar persónulega, leyfir sér meira að segja að skrifa: „Það allra
dásamlegasta við ljóð Braga er …“ (V:421) Svona hefði enginn látið eftir sér að
skrifa hér áður fyrr.
Þetta skiptir meira máli en ég læt. Að geta brýnt gogg sinn á skilningi og
túlkun jafnmikilvægs fyrirbæris og íslenskrar ljóðagerðar síðustu tvær ald-
irnar er frábærara en tölum taki. Silja er afdráttarlaus, hreinskilin og hvatvís
þannig að maður fagnar hverju tækifæri sem gefst til að vera henni sammála
eða ósammála. Hún ögrar og hvetur hvort tveggja í senn og þannig skrifar hún
bókmenntasögu sem maður vonar eigi eftir að skipta verulegu máli.
Það skiptir sköpum í þessu efni að Silja þorir að sýna að hún ann því sem
hún er að fást við og reynir ekki að setja sig í stellingar til að skrifa um það. Mér
getur þótt hún hafa allt of jákvæða afstöðu til sumra nýskáldanna, en hún gerir
það með þeim hætti að ég get hugsað mér í framtíðinni að glíma við hugmynd-
ir hennar og dóma. Sama er að segja um greiningu hennar á Steini Steinar og
samtíð hans. En þegar á heildina er litið er ljóðlistarsagan glymjandi í öllu til-
liti.
Með þessu er ekki sagt að skrif Silju eigi eftir að verða lýsandi fyrirmynd
fyrir þau systkinin Ófróðsbörn sem eiga að skrifa skólaritgerðir um íslensk
ljóðskáld á 19. og 20. öld. Til þess er hún of sjálfstæð og súbjektíf, of hrifnæm
og tjáglöð. En þar með gefur hún líka tilefni til vangaveltna um bókmennta-
sögu.