Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 47
TMM 2007 · 1 47
Vésteinn Ólason
Maddaman með
kýrhausinn og Völuspá
S.l. haust barst Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum svo hljóðandi
bréf:
Ég leyfi mér að fara þess á leit við háttvirta Stofnun Árna Magnússonar í íslensk-
um fræðum, að hún taki við bók minni, Maddömunni með kýrhausinn (MM
2002), sem bréfi þessu fylgir, og láti mér eftir álit sitt á efni hennar, svo rækilegt
sem ástæða þykir til. Er þá spurt, hvort tilgátur þær um hið forna skáldverk
Völuspá, sem þar er fram fylgt, megi að líkindum teljast til bóta.
Spurt er umfram allt, hvort sú tilgáta um form kvæðisins, sem um er rætt á bls.
41–43, geti jafnvel kallast sennileg.
Auk þess fylgir hér skrá yfir nokkur atriði úr handritatexta kvæðisins í útgáfu
Sigurðar Nordals (1952), þar sem sérstaklega er óskað álits á umfjöllun bókar
minnar. Þessi atriði eru tilgreind með tölum, sem vísa til erinda í handritatexta og
samsvarandi atriða í tilgátutexta mínum, ásamt blaðsíðutali bókarinnar þar sem
um þau er fjallað. Með virðingu og þökk fyrir góðar viðtökur.
Helgi Hálfdanarson (sign.)
Hér er sleppt atriðaskránni, sem minnst er á í síðustu efnisgrein, en seinna kemur
fram hver þau atriði eru. Þar sem ég var nýskipaður forstöðumaður þeirrar stofn-
unar sem ávörpuð er í bréfinu, var mér ljúft og skylt að svara því og sendi Helga
stutt bréf þar sem ég benti á vankanta á að stofnun gæti haft skoðun á slíku efni en
tjáði mig fúsan til að reyna eftir mætti að svara erindinu frá eigin bæjardyrum.
Brátt barst mér svar frá Helga sem lýsti ánægju með fyrirætlun mína og tók jafn-
framt fram að hann teldi æskilegt að slíkt svar gæti birst á opinberum vettvangi.
Hér er nú þetta svar komið, en ég tek fram að ekki tekur því að lesa það nema les-
andinn byrji á því að lesa Maddömuna með kýrhausinn, því að þar er að finna
röksemdir fyrir þeim niðurstöðum sem hér er rætt um.
Ekki alls fyrir löngu barst mér í hendur í nýjum búningi bók sem ég las
fyrir einum fjórum áratugum meðan ég sat við fótskör Einars Ól. Sveins-
sonar og drakk í mig eddukvæði. Bókin fjallaði reyndar um eitt þeirra,
Völuspá, þótt ekki bæri nafnið það með sér, en hún heitir Maddaman