Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 48
Vé s t e i n n Ó l a s o n
48 TMM 2007 · 1
með kýrhausinn og færir lesanda sínum túlkun Helga Hálfdanarsonar á
Völuspá og tilraun hans til að líma saman í nýjan grip þau brot sem
menn hafa lesið af gömlum skinnblöðum. Bókin kom út í 2. útgáfu 2002
hjá Máli og menningu.
Kvæðið mikla, sem stendur nafnlaust í upphafi Konungsbókar eddu-
kvæða en Snorri nefnir Völuspá þegar hann vitnar til þess í sinni Eddu,
birtir mikilfenglegar skáldlegar sýnir sem lýsa sem leiftur inn í myrkri
hulda heimsmynd þeirra sem byggðu Norðurlönd fyrir kristni. Það ber
þó einnig merki þess að sá eða sú sem kvað eða þau sem endurkváðu hafi
kynnst einhverjum hugmyndum kristinna manna. Varla mun nokkur
maður trúa því nú að hvert orð sem skráð var á skinnblöð Konungsbók-
ar á ofanverðri þrettándu öld hafi komið úr munni þess skálds sem fyrst
setti saman meginefni þessa mikilfenglega kvæðis, né heldur að allt sem
forðum var kveðið hafi ratað þangað heilt á húfi (til munu þeir sem
draga í efa að kvæðið hafi orðið til sem sköpunarverk eins skálds). Um
miðja fjórtándu öld var önnur gerð kvæðisins, lík um margt en ólík um
annað, skrifuð í handrit sem nefnt er Hauksbók, og nærri önnur hver
vísa í kvæðinu stingur upp kolli í Snorra Eddu, á víð og dreif um Gylfa-
ginningu. Fyrir þessu gerir Helgi skýra grein í bók sinni. Hann vill þó
ekki una kvæðinu eins og það er í meðförum skrifara á þrettándu og
fjórtándu öld, vill rýna í leifarnar og beita skáldlegu innsæi sínu og
skynsamlegu viti til að reisa hið forna kvæði úr rústum. Viðhorfi sínu
til varðveislunnar og eigin verks lýsir hann með dæmisögu sem skýrir
nafn bókarinnar:
Setjum svo, að fundizt hafi í gömlum húsarústum dyngja af smábrotum, sem
athugun sýndi að væru úr fornu skrautkeri myndskreyttu og flúruðu, miklum
kjörgrip og girnilegum til fróðleiks. Gerum enn fremur ráð fyrir, að finnandinn
hafi haldið brotum þessum til haga, öllum sem hann fann, og gert sér ljóst að
um brotið ker var að ræða, reynt af rælni að koma því saman, borið lím í sárin
og skeytt brot við brot, þangað til kominn var hlutur sem raunar mátti kallast
ílát, en var þó hvergi nærri heilt og þaðan af síður lögulegt. Hvað myndi sá gera,
sem löngu síðar fengi „ker“ þetta í arf, og fýsti að skilgreina myndir þess og
ráða fram úr öðru því sem á það var markað? Skyldi hann strax fara að brjóta
um það heilann, hvað kona með kýrhaus ætti að tákna, eða velta því fyrir sér
hvaða goðsögn fælist á bak við andlit sem væri með nefið fyrir neðan munninn,
ef honum lægi það í augum uppi, að kerið væri sett saman allfjarri sínu upp-
runalega formi, mynzturbekkir væru slitnir og brenglaðir, og jafnvel væri sumt
af brotunum greinilega úr annarlegu efni? Nei, hann hlyti að gera ráð fyrir því
raski sem röng skipan brotanna hefði valdið á myndunum; jafnvel myndi hann
ráðast í að leysa burt límið og hreinsa brotin eftir föngum, og gera síðan tilraun
til að finna þeim öllum réttan stað (Maddaman með kýrhausinn, 2.útg., bls. 7).