Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 130
U m r æ ð u r
130 TMM 2007 · 1
orðin séu skrifuð eins. Eins ruglar enginn Íslendingur saman ólíkum fram-
burði á orðinu brúnni í setningunum Við hittumst á brúnni og Hann var í
brúnni skyrtu. Það er (því sem næst?) ógerningur að búa til eðlilega setningu
þar sem hægt væri að rugla þessu saman. Rétt eins og með hringinguna áðan
þá þarf ekki að segja Íslendingi með ólíkri stafsetningu hvernig hann á að bera
orðið brúnni fram af því kunnátta hans í málinu segir honum það. Það er
ástæðulaust að íþyngja stafsetningarreglunum með upplýsingum sem geta
komið úr öðrum áttum.
Stafsetningarreglur flestra Evrópumála urðu til snemma á nýöld, lang-
sennilegast í sambandi við upphaf prentlistar og nauðsyn reglufestu í stafsetn-
ingu á prenti. Reglurnar tóku yfirleitt mið af framburði þess tíma en end-
urspegluðu líka langa hefð uppskrifta á handritum. Þó að ýmsum breytingum
væri komið á næstu aldir á eftir heldur stafsetningin áfram að vera söguleg eins
og glöggt má sjá á málum með langa rithefð eins og grísku. Þegar umtalsverð-
ar og róttækar breytingar hafa verið gerðar þá tölum við um stafsetningar-
umbætur; þær hafa meðal annars verið gerðar í tyrknesku, rússnesku og írsku.
Breytingarnar voru sérstaklega viðamiklar í írsku vegna þess að málið hafði
ekki aðlagast nútímanum á eðlilegan hátt, af sögulegum og pólitískum ástæð-
um, og stafsetning margra orða stakk orðið fullkomlega í stúf við framburð-
inn. Breytingarnar sem gerðar voru 1948 áttu að afnema bókstafaklasa sem alls
ekki heyrðust í framburði, samsvarandi b-inu í lok orðsins lamb á ensku.
Þannig varð til dæmis orðið beirbhiughadh (matseld) að beiriú. Það er sem sagt
hægt að breyta og jafnvel bylta stafsetningu tungumála en það getur orðið
dýrkeypt.
Stafsetning tungumála er hluti af arfi fortíðarinnar og henni ber að sýna
virðingu. Flókin atriði segja oft sitt um fyrri stig málsins, eins og dæmið með
ei og ey á íslensku eða hvenær við skrifum yfirleitt i eða y, í eða ý. Stafsetning-
in getur gefið uppruna orða í skyn og hvernig þau tengjast öðrum orðum.
Róttækar umbætur sem hafa viðamiklar breytingar í för með sér rjúfa tengslin
við fortíðina, og næsta kynslóð eða sú þarnæsta getur þá ekki eða nennir ekki
lengur að nýta sér eldri bækur og annað prentað mál. Írskumælandi fólk sem
hefur vanist nýju stafsetningunni les með erfiðismunum texta á írsku frá 19.
öld. Það er að sjálfsögðu afar óhagkvæmt fjárhagslega að endurprenta hundruð
þúsunda bóka. Að auki má gera því skóna að framburðurinn breytist enn á
næstu hundrað árum, og jafnvel nú má velta fyrir sér hve nærri framburði
stafsetning ætti að vera. Er til dæmis ástæða til að breyta stafsetningu á hver og
hvergi bara af því okkur heyrist fólk stundum segja kvur, kvurgi? Ætti að leyfa
bæði tilbrigðin? Ætti hver og einn að fá að skrifa það sem hann eða hún þykist
bera fram? Á hver tungumálið fyrir sig eða tilheyrir það samfélaginu í heild?
Það er ekki alvarlegur vandi í íslensku en mállýskumunur getur verið mikill.
Töluð enska til dæmis í Glasgow er ekki aðeins gerólík talaðri ensku í Suður-
ríkjum Bandaríkjanna heldur líka annars staðar á Bretlandi. En hversu ólíkt
sem málið hljómar þá skapar hagkvæm samræmd stafsetning í enskumælandi
löndum tilfinningu fyrir mállegri heild. Það er að hluta til stafsetningin sem