Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 12
D i c k R i n g l e r
12 TMM 2007 · 1
að maður geti sagt að Jón Sigurðsson hafi verið mun mikilvægari í sjálf-
stæðisbaráttunni. En Jónas gefur fólki stöðugt eitthvað til að hugsa um
og vinna að, menningarlega og heimspekilega hvatningu: Þetta þurfum
við að gera til að eignast landið aftur.
Hann var sálin, Jón heilinn í baráttunni, og við þurfum á hvoru
tveggja að halda. Hann var ekki hagsýnn maður, ekki raunsær athafna-
maður, hann og aðrir Fjölnismenn vildu að Alþingi kæmi saman á
Þingvöllum – sem auðvitað væri hægt með nútímasamgöngum. En þá
var þetta fáránleg hugmynd og flest fólk áttaði sig á því. Jónas skildi ekki
að samfélagið var að breytast í átt til borgarvæðingar og Reykjavík var að
verða miðstöð landsins. Aumingja Jónas, hann var svo rómantískur!“
Hann skipti miklu máli alla leið til 1944, við kaupum það! En hví skyld-
um við lesa hann núna?
„Ef ég ætti að skipuleggja málþing um Jónas núna þá held ég að ég
myndi stinga upp á því að athuga hvaða skoðun hann hefði nú á tog-
streitunni um íslenska náttúru og auðævi hennar. Hann unni nátt-
úrunni bersýnilega, og margar hugmyndir Íslendinga um náttúruna
koma beint frá Jónasi. En hann vildi líka framþróun, efnahagslegar
framfarir, og hann hefði verið í vanda staddur frammi fyrir Kára-
hnjúkavirkjun. Ég er ekki viss um að hann hafi skilið í hvaða áttir
efnahagslegar framfarir myndu fara. Þær voru svo hægfara á hans tíma.
En á okkar dögum eru þær stórstígar og það væri spennandi að vita
hvaða skoðanir hann hefði á þeim. Núna. Myndi hann segja: Efna-
hagsþróunin hefur gengið of langt og er farin að hafa alvarleg eyðilegg-
ingaráhrif á íslenska náttúru? Hann hefði eins þungar áhyggjur og aðrir
af hlýnun andrúmsloftsins og almennu kæruleysi fólks gagnvart henni.
En ég held að af því hann trúði á náttúruna og fegurð hennar og líka á
þörfina á efnahagsþróun til að landið yrði sjálfbært og auðugt þá hefði
honum fundist þessi togstreita afar erfið. Hann hefði þjáðst. Þannig
skiptir hann ennþá máli.
Íslendingar sjá Ísland með hans augum að svo miklu leyti, hann gaf
ykkur orðin til að vegsama náttúruna. Og þó gerið þið ykkur kannski
ekki grein fyrir því hvað áhrif hans eru mikil. Aðferð hans var rétt, svo
einfalt er það. Og hann var fyrstur. Hann dáðist að Eggerti Ólafssyni
aðallega vegna áherslu Eggerts á efnahagslegar framfarir sem áttu að
koma landinu upp úr örbirgðinni. Eggert talar mikið um náttúruna og
Jónas metur það mikils, en áhugi Eggerts á henni er fyrst og fremst
hagsýnn, hann er enginn rómantíker. Náttúran er fögur ef hún er gagn-
leg. Náttúrukvæði hans eru öll um það hvernig megi hafa gagn af nátt-
úrunni.