Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 97
TMM 2007 · 1 97
T ó n l i s t
Jónas Sen
Er tónlistarheimsendir í nánd?
Einhverntíma í júní í fyrra fékk ég sms frá vinkonu minni, sem var stödd í
útlöndum. Það hljómaði svona: „Hann Ligeti er dáinn!“ Þessi vinkona mín er
ekki tónlistarkona, engu að síður skiptu fréttirnar af andláti tónskáldsins hana
töluverðu máli. Sem er ekki að undra; Ligeti var eitt merkasta tónskáld sam-
tímans og hafði áhrif langt út fyrir þröngan hóp þeirra sem hafa brennandi
áhuga á nútímatónlist. Sennilega hafa fá tónskáld sem sömdu virkilega krefj-
andi tónlist notið eins mikillar almennrar hylli og Ligeti.
Afhverju? Jú, vegna kvikmynda Stanleys Kubrik. Kubrik hélt mikið upp á
Ligeti og notaði tónlist hans töluvert í myndum sínum. Hún heyrist hljóma í
The Shining, Eyes Wide Shut og 2001: A Space Odyssey og skapar ávallt afar sér-
kennilegt andrúmsloft. Ég heyrði hana fyrst þegar ég var átta ára gamall, en þá
dró systir mín mig á síðastnefndu myndina. Þar sá ég forfeður mannkyns upp-
götva dularfullan hlut sem geimverur höfðu skilið eftir sig, og um leið var
spilað kórverk eftir Ligeti sem gersamlega tætti mig í sundur. Síst áhrifaminni
er tónlistin í The Shining (ég hélt ég væri að fá hjartaáfall þegar ég sá þá mynd
fyrst), og í Eyes Wide Shut er píanóverk eftir Ligeti sem samanstendur bara af
tveimur tónum, eís og fís. Þeir mynda stutta tónhendingu sem er leikin aftur
og aftur og undirstrikar þá brjálæðislegu þráhyggju er myndin fjallar um.
Persónulega finnst mér Eyes Wide Shut einhver magnaðasta kvikmynd sem
gerð hefur verið.
Viðburður á Kirkjubæjarklaustri
Þó að Ligeti hafi dáið á árinu, fór ekki mikið fyrir honum í tónlistarlífinu hér
á landi. Allir kepptust við að lofa hinn 250 ára gamla Mozart, og stundum fór
lofið út yfir öll mörk velsæmis, eins og þegar það stóð í tónleikaskrá að hann
einn dauðlegra manna hefði skilið tungumál guðanna! En Ligeti, sem var ekk-
ert minna merkilegur, féll í skuggann. Ég man ekki eftir nema einu skipti sem
ég heyrði lifandi flutning á tónlist hans; það var þegar Sigrún Eðvaldsdóttir
fiðluleikari, Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari og Stefán Jón Bernharðs-
son hornleikari spiluðu tríó fyrir horn, fiðlu og píanó á kammerhátíðinni á
Kirkjubæjarklaustri í ágúst.