Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 131
U m r æ ð u r
TMM 2007 · 1 131
gerir ensku að einu tungumáli. Þrátt fyrir meiri og minni mun er þetta sama
tungumál og á Kantaraborgarsögum Chaucers frá 14. öld sem enn má lesa með
smávegis aðstoð. Íhaldsöm stafsetning gefur þannig aðgang að gífurlegum
menningarverðmætum í tíma og rúmi. Augljóslega þarf eitthvað á sig að leggja
til að læra á kerfið en getur nokkrum ábyrgum manni dottið í hug í alvöru að
leggja það niður bara vegna þess að börn þurfa að púla (meira) til að ná valdi á
því?
Mig langar til að enda á persónulegum nótum. Fyrsta kennslubókin í
nútímaíslensku sem ég fékk í hendur var A Primer of Modern Icelandic eftir
Snæbjörn Jónsson sem var fyrst gefin út af Oxford University Press árið 1927
og endurprentuð oft og mörgum sinnum (líklega síðast árið 1972). Sem
kennslubók var hún afrek á sínum tíma þó að hún sé núna orðin fáránlega
gamaldags. Ein fyrsta setningin í þessari bók er: Eruð þjer fjelaus? Núna myndi
ég segja: Ertu blankur / blönk? En skyldi það vera tilfinningasemi ellinnar sem
gerir að verkum að ég myndi kjósa fremur stafsetninguna frá 1927 með sitt je
en leið Halldórs Laxness: Ertu blánkur / blaunk?
Elsa S. Þorkelsdóttir
Af ákveðnum körlum
og frekum konum
Fyrir nokkrum árum las ég sjálfsævisögu Hillary Rodham Clinton, fyrrum
forsetafrúar Bandaríkjanna, Living History. Bókin gaf mér innsýn í líf heillandi,
ákveðinnar og metnaðarfullrar konu. Við lestur bókarinnar kynntist ég einnig
hvernig fjölmiðlar og andstæðingar Clinton hjónanna í stjórnmálum unnu
markvisst að því að setja þessa sterku konu „på plads“ eins og danskurinn segir,
en Hillary tók fullan pólitískan þátt í framboði mannsins síns til embættis
forseta Bandaríkjanna og hafði einnig pólitísku hlutverki að gegna eftir emb-
ættistökuna. Allt sem hún sagði og gerði var tætt niður. En það var ekki tætt
niður með rökum eins og þeir sem starfa í stjórnmálum ættu að geta gert kröfu
til, heldur með „svona nokkuð segir maður ekki; svona nokkuð gerir maður
ekki“.
Frægt er þegar hún lét þau orð falla í kosningabaráttunni í nokkuð pirruðum
tón vegna allrar gagnrýninnar að vissulega hefði hún getað verið heimavinn-
andi húsmóðir og bakað smákökur, en hún hefði valið að starfa utan heimilis.
Bandarískt samfélag fór á annan endann. Hún segir einnig frá því að henni
hafi verið ráðlagt af kosningaráðgjöfum mannsins síns að nota ekki fjölskyldu-
nafn sitt, Rodham, aðeins Clinton nafnið. Notkun beggja nafnanna myndi að