Tímarit Máls og menningar - 01.02.2007, Blaðsíða 44
Á r m a n n J a k o b s s o n
44 TMM 2007 · 1
7.
Þessi lokaorð hafa raunar valdið sumum lesendum vonbrigðum.10
Kannski eru þau of óljós, of þokukennd. Kannski vegna þess að þau eru
alls ekkert lok heldur upphaf. Það er óneitanlega fremur fátítt að sögulok
veiti lesandanum slíkt frelsi til að byrja frá grunni en einmitt það var
erindi Svövu á ritvöllinn, að byrja upp á nýtt og til þess varð að snúa
niður gömlu orðin og gömlu sögurnar.11 Í leit að nýju og réttlátara upp-
hafi.
Þó að sjónum sé beint að skóm, flísum, borðdúkum og pylsubitum
snýst Gunnlaðar saga um sjálfan grundvöll heimsins og hvernig hann er
skilgreindur: Alveg eins og í Völuspá þarf ný jörð að rísa úr rústum hins
gamla heims. Í þessu tilviki ný goðsaga í stað þeirrar gömlu sem frúin
hefur nú hafnað með því að stela kerinu. Og hver er kjarni þessarar nýju
sögu? Kannski er hann einmitt það sem vantar í svo margar gömlu
goðsögurnar sem ennþá eru burðarás í menningu okkar og svo sann-
arlega í goðsöguna um Gunnlöðu og skáldskaparmjöðinn stolna. Kjarn-
inn er þá frelsi. Jafnrétti. Bræðralag. Tvö tré á ströndu. Askur og Embla.
Ekkert annað.
Hér er enginn Guð faðir sem segir verði ljós. Ekki einu sinni Óðinn
og bræður hans á spásserisgöngu í flæðarmálinu, hugsandi: Í dag er
góður dagur til að skapa. Ekkert nema tvö tré. Og. Möguleikar. Okkar.
Tilvísanir
1 Strax í upphafi var Gunnlaðar saga oft túlkuð sem hálfgerð endurritun íslenskra
fornbókmennta, sjá m.a Maureen Thomas, „Gunnlaðarsaga og kvenröddin í
íslenskri bókmenntahefð,“ Skírnir 162 (1988), 138–63. Það er hún vissulega þó að
hér sé beint sjónum að hinni hliðinni.
2 Má þar nefna að Svava sjálf, Maureen Thomas og Rory McTurk rituðu greinar um
þetta í Skírni (1988 og 1991).
3 Þorleifur Hauksson lýsir þessu ágætlega í stílsögu sinni (Sagnalist: Íslensk stíl-
fræði II – Skáldsögur 1850–1970. Reykjavík 2003, bls. 269–73).
4 Svava ræddi sjálf tilurð sögunnar og hugmyndir sínar skömmu eftir ritun hennar
(„Gunnlöð og hinn dýri mjöður,“ Skyggnst á bak við ský. Reykjavík 1999, 309–41,
upphaflega birt í Skírni, 1988). Soffía Auður Birgisdóttir hefur á hinn bóginn
nýlega ritað um kristin tákn í sögunni sem á sínum tíma féllu í skuggann af
írskum goðsagnaminnum („Lífsvon í deyjandi sköpunarverki,“ Kona með spegil:
Svava Jakobsdóttir og verk hennar. Ármann Jakobsson ritstýrði. Reykjavík 2005,
116–30). Enn fremur skrifuðu Pétur Gunnarsson (Skírnir 162 (1988), 199–203)
og Vésteinn Ólason (Tímarit Máls og menningar 49 (1988), 242–47) efnismikla
og vandaða ritdóma um Gunnlaðar sögu, sem sýna hvernig sögunni var tekið á
sínum tíma.